Alfreð Finnbogason opnaði markareikning sinn í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag þegar hann skoraði bæði mörk Helsingborg í 2-1 heimasigri á Skúla Jón Friðgeirssyni og félögum í Elfsborg. Alfreð kom Helsingborg í 1-0 í byrjun leiks og skoraði síðan sigurmarkið þrettán mínútum fyrir leikslok.
Mörkin hans Alfreðs komu á 15. og 77. mínútu leiksins en Niklas Hult jafnaði fyrir Elfsborg á 40. mínútu. Alfreð er í láni hjá Helsingborg frá belgíska félaginu Lokeren.
Skúli Jón Friðgeirsson var í byrjunarliði Elfsborg í sínum fyrsta leik með félaginu en hann var tekinn útaf þremur mínútum eftir að Alfreð skoraði sigurmarkið.
Þetta var annar leikur Alfreðs með Helsingborg en hann náði ekki að skora í 0-1 tapi fyrir Norrköping í fyrstu umferðinni.
