Tímataka Lewis Hamilton hefur verið dæmd ógild af dómurum í spænska kappakstrinum því Hamilton gat ekki ekið bilnum inn í skúr. Pastor Maldonado ræsir því fremstur í kappakstrinum á morgun.
Hamilton stöðvaði bílinn út á brautinni áður en hann gat komið honum inn í skúr en það er ólöglegt samkvæmt reglum í Formúlu 1. Ökumenn verða að aka bílum sínum beint inn í skúr, og nota til þess vélarafl bílsins sjálfs, eftir að köflótta flaggið fellur.
Þá verður liðið að skila dómurum einum lítra af eldsneytinu í tanki bílsins eftir að tímatökunni lýkur. McLaren gat ekki skilað lítra úr bíl Hamilton því bíllinn varð bensínlaus í miðjum "inn-hring".
McLaren-liðið mótmælti þessum úrskurði og hefur reynt að beita öðrum skilgreiningum á hugtökum laganna en dómarnir til að reyna að fá ákvörðuninni hnekkt. Hamilton fær þó að keppa á morgun en ræsir aftastur.
Pastor Maldonado ræsir spænska kappaksturinn fremstur í fyrsta sinn á Formúlu 1 ferli sínum. Það verður að teljast óvænt tíðindi fyrir Williams-liðið.
Hamilton dæmdur úr leik á Spáni

Tengdar fréttir

Hamilton á ráspól á Spáni
Lewis Hamilton krækti í sinn þriðja ráspól í tímatökum fyrir spænska kappaksturinn sem fram fóru í dag. Hann fór hálfri sekúntu hraðar en Williams-ökuþórinn Pastor Maldonado sem fór nokkuð óvænt annan hraðasta hring í tímatökunum.