Veiði

Stórurriðar á sveimi úti um alla á

Trausti Hafliðason skrifar
Horft frá Húsabreiðu og niður að Stöðvarhyl.
Horft frá Húsabreiðu og niður að Stöðvarhyl. Trausti
Tæplega 30 urriðar eru komnir á land í Minnivallalæk það sem af er vori. Algeng stærð er á bilinu 5 til 9 pund.

Ég og Svavar Hávarðsson blaðamaður fórum í Minnivallalæk í gær. Við "veiddum" frá klukkan ellefu fyrir hádegi og til sjö um kvöldið. Við vorum iðnir við bakkann og tókum okkur aðeins tæplega klukkutíma nestispásu. Á þessum tíma sáum við helling af fiski, líklega eina 20 urriðabolta en enginn af þeim vildi okkur. Á leiðinni í bæinn sammæltumst við um að skrifa þetta á óheppni og reynsluleysi - svona til að friða samviskuna.

Veitt andstreymis á hnjánum


Í byrjun skiptum við með okkur tveimur af helstu veiðisvæðum árinnar. Svavar byrjaði í Stöðvarhyl og ég á Húsabreiðunni. Það var logn, vatnið var spegilslett, og þegar við komum að ánni var þetta eins og að líta ofan í fiskabúr. Ég sá strax þrjá urriða á breiðunni og Svavar nokkra í hylnum.

Við veiddum með púpum og straumflugum en hann gaf sig ekki. Við skriðum á hnjánum og veiddum andstreymis og oftar en ekki sáum við fiskinn skjótast undan bakkanum þegar við vorum komnir of nálægt. Sem sagt ef þú lesandi góður ert að fara í Minnivallalæk kastaðu þá meðfram bakkanum, þar liggja ófáir fiskar.

Þegar við vorum búnir með Stöðvarhylinn og Húsabreiðunni veiddum við Brúarstrengina. Það var eini merkti staðurinn þar sem við sáum ekki fisk. Við héldum göngu okkar áfram niður með ánni en töluverður spotti er að næsta merkta veiðistað sem er Viðarhólmi. Á leið okkar þangað spjölluðum við saman og nutum náttúrunnar.

Áin bólgnaði skyndilega


Áin breiðir svolítið á sér á þessari leið og ekki datt okkur í hug að kasta á ómerkta breiðu. Ekki fyrr en við sáum undan okkur hvar áin bólgnaði skyndilega og fiskur skar sár í vatnið á leið sinni niður ána. Þvílík sjón. Þetta var stór fiskur. Við sáum hvar hann stoppaði og skyggndum hylinn úr fjarska. Jú, þarna var vinafundur þriggja vænna urriða sem dingluðu sporðunum kæruleysislega úti í miðri á. Við munduðum stangirnar og köstuðum á hópinn, púpur og þurrflugur runnu í gegnum hylinn en urriðarnir hlógu bara enda vísast löngu búnir að sjá okkur.

Það hvessti nokkuð á leiðinni niður að Viðarhólma og Djúphyl. Á báðum þessum stöðum sáum við fiska. Einn gerði sig líklegan til að taka fluguna hans Svavars en snerist skyndilega hugur þegar tæpur metri var í krókinn. Þetta var fyrsta kast Svavars með Kettinum þennan dag.

Eftir nestispásuna veiddum við aftur Stöðvarhylinn og Húsabreiðuna. Núna byrjaði ég í Stöðvarhylnum og var harðákveðinn í því að veiða þetta af skynsemi. Ég byrjaði neðst og veiddi andstreymis. Fljótlega, þar sem ég ligg á hnjánum, sé ég hvernig það sjatnar í ánni við hliðina á mér. Ég leit upp hylinn og þar sé ég stærsta urriða sem ég hef séð berum augum. Hann kíkti tvisvar letilega upp úr hylnum áður en hann hvarf. Ég sýndi honum allt það besta sem ég átti í vopnabúrinu en hann var ekki á þeim buxunum að elta minn krók. Bara alls ekki. Þegar ég var kominn efst í Stöðvarhylinn kastaði ég rauðum Nobbler niður á lítið brot og þá fékk ég högg. Loksins. Fiskurinn tók ekki en dagurinn var samt fullkomnaður.

Þeir "minnstu" 3,5 pund

Eins og maður gerir þegar maður fer í veiði, þá skoðuðum við veiðibókina vandlega. Þar kom ýmislegt forvitnilegt í ljós. Frá því veiði hófst hafa 29 fiskar veiðst í ánni. Þeir minnstu voru 3,5 til 4 pund en algengasta stærðin var á bilinu 5 til 9 pund. Sá stærsti var tæp 18 pund en þann fisk veiddi Nils Folmer Jörgensen og við höfum sagt þá sögu hér á Veiðivísi.

Af 29 fiskum hefur 21 veiðst í Stöðvarhyl.Þessi veiði hefur komið úr ánni á tíu veiðidögum. Veiðivísir hefur ekki upplýsingar um það hversu margir hafa farið í ánna. Í fyrra veiddust 250 fiskar í Minnivallalæk, 300 árið 2010 og 375 árið 2009.

Af þeim 29 sem hafa komið á land í vor hafa tólf veiðst á Midge-púpu, krók númer 18. Ellefu hafa veiðst á straumflugur, aðallega Black Ghost og svarta Nobblera.






×