Mark Webber ætti að fara til Ferrari. Þetta segir Alan Jones fyrrum heimsmeistari í Formúlu 1. Óvissa hefur skapast um sæti Felipe Massa hjá Ferrari vegna slæmrar frammistöðu hans í ár.
„Ég er viss um að Webber muni skoða það mjög vel," segir Alan Jones. „Færi hann til Ferrari gæti það reynst ferskur blær í feril hans. Að keppa fyrir Ferrari er eitthvað sem öllum dreymir um að hafa á ferilskránni."
Alan Jones varð heimsmeistari fyrir Williams-liðið árið 1980. Hann er Ástrali eins og Webber. „Mark hefur nú þegar gert eitt af því sem öllum dreymir um. Það er að vinna Mónakókappaksturinn."
Samningur Webbers við Red Bull-liðið, þar sem hann ekur nú, rennur út í lok árs. Það gæti reynst mikil þraut að vera liðsfélagi Fernando Alonso hjá Ferrari en Jones segir að það ætti ekki að vera of mikið vandamál. „Hjá Red Bull er liðsfélagi hans Sebastian Vettel, það eitt er stórkosleg þraut og Webber stendur sig vel."
