Brautin í Valencia er ekin um stræti borgarinnar og þar getur verið gríðarlega flókið að stilla bílunum upp svo vel sé. Brautin hefur uppá að bjóða margar hægar beygjur um skítugar göturnar þar sem vegripið er lítið. Þeirra á milli eru langir beinir kaflar þar sem vegriðin þrengja meira og meira að ökumönnum um leið og þeir raða gírunum upp í þann sjöunda.
En uppsetning bílanna skiptir ekki höfuð máli hér því náttúrulegt niðurtog og loftfræði um bílinn er gríðarlega mikilvægt. Red Bull-bílar Adrian Newey hafa undanfarin ár borið höfuð og herðar yfir keppinauta sína hvað þetta varðar.

Evrópski kappaksturinn hefur verið haldinn í Valencia síðan 2008. Kappaksturinn hér býður ekki upp á mörg framúraksturstækifæri sökum þess hversu þröng brautin er og hlykkjótt. Kappaksturinn ræðst því nokkuð á framistöðu í tímatökum og keppnisáætlunum. Ætla má að gríðarleg spenna gæti skapast í kappakstrinum í ár enda eru bílarnir hver öðrum betri og lítið skilur á milli efstu manna.
Eftir kappaksturinn í Kanada fyrir tveimur vikum er Lewis Hamilton efstur í stigamóti ökuþóra. Hann ók frábærlega í kappakstrinum vestra og bíllinn leit gríðarlega vel út. Liðsfélagi hans hjá McLaren átti erfitt uppdráttar í mótinu. McLaren-liðið er þó fullvisst um að vandamál hans séu úr sögunni.
Ekki má gleyma Kimi Raikkönen á Lotus og liðsfélaga hans Romain Grosjean. Þeir hafa oftar en ekki stuggað við efstu mönnum í ár og geta vel gert það í Valencia. Talið er að Lotus-bíllinn henti brautinni vel. Það mun þó há þeim meira en nokkru sinni áður hversu harður bíllinn er á dekkin. Þau munu spila stórt hlutverk í Valencia.
Í fyrstu sjö mótum ársins hafa sjö ökuþórar sigrað. Það hefur aldrei gerst áður í sögu Formúlu 1. Ætli kappaksturinn í Valencia bjóði upp á áttunda sigurvegarann?
DRS svæði: Á "beina kaflanum" milli beygja 10 og 12.
Dekkjagerðir í boði: Mjúk (option) og miðlungs hörð (prime)
Efstu þrír árið 2011:
1. Sebastian Vettel - Red Bull
2. Fernando Alonso – Ferrari
3. Mark Webber – Red Bull
Allt mótið er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Fimmtudagur:
8:00 Æfing 1
12:00 Æfing 2
Laugardagur:
8:55 Æfing 3
11:50 Tímataka
Sunnudagur:
11:40 Kanadíski kappaksturinn
Staðan í titilbaráttunni eftir sex umferðir
Ökumenn
1. Lewis Hamilton - 88 stig
2. Fernando Alonso - 86
3. Sebastian Vettel - 85
4. Mark Webber - 79
5. Nico Rosberg - 67
6. Kimi Raikkönen - 55
7. Roman Grosjean - 53
8. Jenson Button - 45
9. Sergio Perez - 37
10. Pastor Maldonado - 29
Bílasmiðir
1. Red Bull - 164 stig
2. McLaren - 133
3. Lotus - 108
4. Ferrari - 97
5. Mercedes - 69