Birkir Már Sævarsson og félagar þurftu að sætta sig við 0-1 tap á mót Odd Grenland í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Brann var búið að vinna þrjá leiki í röð og hafði ekki tapað í deild eða bikar síðan í byrjun júlímánaðar.
Herolind Shala skoraði eina mark leiksins á 66. mínútu eftir flotta sókn og stoðsendingu frá Niklas Gunnarsson.
Birkir Már spilaði allan leikinn í hægri bakverðinum og fékk að líta gula spjaldið fyrir brot sjö mínútum fyrir leikslok.
Brann átti möguleika á því að komast upp í fjórða sæti deildarinnar með sigri en Odd komst upp í tíunda sætið með því að landa þessum þremur stigum í kvöld.
Fyrsta tap Birkis og félaga síðan í byrjun júlí
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
