Belgíski ökuþórinn Jerome d'Ambrosio mun aka í stað Romain Grosjean í ítalska kappakstrinum um komandi helgi. Grosjean var bannað að keppa á Ítalíu vegna slyssins sem hann var valdur af í upphafi belgíska kappakstursins á sunnudaginn.
Lotus-liðið staðfesti þetta í dag en Eric Boullier, liðstjóri Lotus, hafði sagt það "mjög líklegt" að d'Ambrosio fengi verkefnið. "Við gerðum samning við d'Ambrosio sem þriðja ökumanninn okkar og hann er klár í slaginn, ferskur og hæfileikaríkur," sagði Boullier.
D'Ambrosio ók allt tímabilið í fyrra fyrir Virgin-liðið (sem heitir nú Marussia). Charles Pic hreppti sætið hans fyrir tímabilið. Besti árangur Belgans var fjórtánda sætið í Ástralíu og í Kanada árið 2011. Í Kanada ók hann raunar alla leið úr 24 og í Ástralíu alla leið úr 22 sæti í keppninni.
D'Ambrosio ekur fyrir Lotus á Monza
