Veiði

Veiddi flottan birting og heldur áfram í nepjunni

Þessi fallegi sjóbirtingur af svæði 3 í Hörgá var 65 sentimetrar.
Þessi fallegi sjóbirtingur af svæði 3 í Hörgá var 65 sentimetrar. Mynd / Guðrún Una Jónsdóttir
Guðrún Una Jónsdóttir, formaður Stangaveiðifélags Akureyrar, hefur verið að reyna fyrir sér í Hörgánni að undanförnu. Á sunnudaginn landaði hún glæsilegum sjóbirtingi en síður gekk í fyrrdag enda æði napurt við árbakkann þá.

Guðrún segir svæði 3, 4a og 5a í Hörgá opin til og með deginum á morgun.

"Ég skrapp á 4.svæðið í gær [á fimmtudag] en fékk ekkert enda með afbrigðum napurt. Hofsá í Skagafirði er opin til 4.okt og hafa menn oft gert flotta haustveiði þar ma sett í laxa. Hún ætti að vera tær núna í kuldanum," segir Guðrún.

Fjarðará í Hvalvatnsfirði hefur gefið á fjórða hundrað bleikjur skráðar bleikjur í sumar. "Hins vegar spilltist færðin þangað í snjóbylnum um daginn og ég veit ekki hvernig hún er núna," segir Guðrún sem kveður Ólafsfjarðará og Svarfaðardalsá hafa lokað um síðustu mánaðarmót líkt og Hraun og Syðrafjall. Eftir sé að taka saman veiðitölur frá sumrinu.

En aftur að stóra sjóbirtingnum sem Guðrún veiddi í Hörgá um síðustu helgi. Við gefum hennni sjálfri orðið í pistli sem birtist á heimasíðu Stangaveiðifélags Akureyrar, svak.is:

"Nú fer að styttast í að síðustu svæðin í Hörgánni loki en þau eru opin út þennan mánuð. Formaður SVAK hefur tekið ástfóstri við svæði 3 í fyrrnefndri á. Ekki að ástæðulausu.

Það hefur ekki aðeins gefið marga flotta bleikjuna heldur eru einnig góðar líkur á flottum sjóbirtingum ekki síst á haustdögum sem þessum. Mín lagði því bjartsýn af stað í birtingu í morgun. Fór eins og oft áður upp að Steðja og setti þar í fimm fiska og landaði þremur, allt bjartar haustbleikjur.

Varð svo ekki meira vör og komin heim klukkan tólf til að sjá leik dagsins sem ég hefði þó líklega átt að sleppa. Það var þó til að bjarga geðheilsunni að leik loknum að fara aftur á bakka Hörgár. Ákvað að breyta út af vananum og veiddi þriðja svæðið af vesturbakkanum. Náði tveimur bleikjum og missti eina en rúsínan í pylsuendanum kom þó um sexleytið en þá var stöngin næstum hrifsuð úr höndunum á mér þegar myndarlegur sjóbirtingur tók fluguna, bleikan dýrbít.

Þetta var ótrúleg taka og byrjaði kvikindið að rjúka upp í fjöruborðið, já reyndar á þurrt land og svo á fleygiferð út í aftur. Þarna tók hjartað í mér stóran kipp því ég sá stærðina á honum. Eftir nokkra stimpingar náðist birtingurinn á land. Hann mældist 65 sentimetrar og var vel sver. Honum var síðan sleppt að snöggri myndatöku lokinni.

Því miður var enginn ljósmyndari með í för til að mynda birting og veiðimann saman en meðfylgjandi mynd verður að duga. Annars er Hörgáin vatnsmikil þessa dagana eftir alla snjóbráðina en hún er þó nánast tær."

gar@frettabladid.is






×