Gylfi Þór Sigurðsson spilaði síðustu 23 mínúturnar þegar Tottenham gerði 1-1 jafntefli við gríska liðið Panathinaikos á Ólympíuleikvanginum í Aþenu í kvöld í J-riðli Evrópudeildarinnar. Tottenham komst í 1-0 en fékk á sig jöfnunarmark úr skyndisókn þegar þrettán mínútur voru til leiksloka. Tottenham gerði markalaust jafntefli við Lazio í fyrstu umferðinni.
Michael Dawson kom Tottenham í 1-0 tíu mínútum fyrir hálfleik þegar hann skallaði inn aukaspyrnu Tom Huddlestone. Tottenham-liðið var með góð tök á leiknum í fyrri hálfleik og virtist ætla að gera það sem þurfti til að fara með öll stigin heim til Englands.
Grikkirnir voru hinsvegar ekki á því en þeir komu líflegir inn í seinni hálfleik og fóru að ógna enska liðinu meira. Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður fyrir Clint Dempsey á 67. mínútu en staðan var þá enn 1-0 fyrir Tottenham.
Tottenham-menn voru of værukærir í seinni hálfleik og Jose Verdu Toche jafnaði leikinn á 77. mínútu eftir að hafa fengið frábæra stungusendingu inn fyrir vörnina frá Giourkas Seitaridis.
Panathinaikos átti nokkrar ágætar sóknir í lokin og Tottenham gat þakkað fyrir að missa ekki öll stigin frá sér.
Annað jafntefli í röð hjá Tottenham í Evrópudeildinni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
