Árni Páll er þegar í fyrsta sætinu og freistast nú til þess að verja stöðu sína, en fjármála- og efnahagsráðherrann, Katrín Júlíusdóttir, sækist einnig eftir fyrsta sætinu í kjördæminu. Hún náði öðru sætinu í prófkjöri flokksins fyrir fjórum árum. Þannig er óhætt að segja að hart verði barist í forvalinu.
Ólafía vann meðal annars fyrir Ólaf Ragnar þegar hann var fyrst kosinn. Svo stjórnaði hún framboði hans í síðustu forsetakosningum þar sem Ólafur fór örugglega með sigur af hólmi. En Ólafía hefur áður unnið fyrir þingmann Samfylkingarinnar. Árið 2005 var hún kosningastjóri Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjöri hennar gegn Össuri Skarphéðinssyni, þar sem Ingibjörg sigraði örugglega.
Árni Páll hefur einnig gefið kost á sér í formann Samfylkingarinnar en þær kosningar fara ekki fram fyrr en á landsfundi flokksins á næsta ári. Ólafía mun einnig fylgja Árna Páli í gegnum þann slag, hvernig sem fer í forvalinu.

Alls hafa tíu boðið sig fram í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi um 5 efstu sæti á framboðslista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Flokksval með stuðningsmönnum fer fram rafrænt dagana 9. og 10. nóvember. Nú vinna allir hörðum höndum að því að skrá fólk í flokkinn en skráningu lýkur næstu helgi.
Í framboði eru Amal Tamimi, framkvæmdastjóri, sem býður sig fram í 2.-3. sæti, Anna Sigríður Guðnadóttir, deildarstjóri Heilbrigðisvísindabókasafns LSH, í 2.-4. sæti, og svo auðvitað Árni Páll Árnason, alþingismaður, sem býður sig fram í 1. sæti, Geir Guðbrandsson, vaktstjóri, í 5. sæti, Katrin Júlíusdóttir, alþingismaður og ráðherra, í 1. sæti, Lúðvík Geirsson, alþingismaður, í 2. sæti, Magnús Orri Schram, alþingismaður, í 2.-3. sæti, Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi og kennari, í 3.-4. sæti, Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, í 3.-4. sæti og Stefán Rafn Sigurbjörnsson, nemi, í 3.-5. sæti.
Þingmenn kjördæmisins eru þau Katrín og Árni Páll og svo Lúðvík og Magnús Orri.