Alonso ók Ferrari-bíl sínum í mark í öðru sæti á undan Mark Webber á hinum Red Bull-bílnum. Alonso gerði allt rétt í kappakstrinum en gat ekki gert atlögu að Vettel sem hafði komið sér upp góðu forskoti strax á fyrstu hringjunum.
McLaren-ökumennirnir Lewis Hamilton og Jenson Button náðu ekki að skáka Red Bull eins og þeir höfðu lofað fyrir mótið í Indlandi. Hamilton reyndi að komast fram úr Webber í síðustu hringjunum en gat ekki þó KERS-kerfið væri bilað í bíl Webber.
Hamilton lauk því mótinu í fjórða sæti á undan Felipe Massa á Ferrari. Kimi Raikkönen ók Lotus-bílnum í mark í sjötta sæti. Nico Hulkenberg á Force India lauk mótinu í áttunda sæti á undan Romain Grosjean hjá Lotus.
"Mér líkar brautin hér mjög vel," sagði Vettel þegar hann var spurður hvort hann hefði einfaldlega hannað brautina sjálfur fyrir sig. Enginn hefur leitt mótið í Indlandi annar en Sebastian Vettel í þau tvö skipti sem kappaksturinn hefur verið haldinn.
Martin Brundle benti Vettel þá á að hann hafi nú leitt fleiri hringi í röð í Formúlu 1 en Ayrton Senna gerði árið 1989. Gráti næst svaraði Vettel: "Það er geggjað. Við munum alltaf muna eftir Senna, ekki bara út af þessum metum heldur líka af því að hann var frábær manneskja."
Síðasta stigasætið tók Bruno Senna á Williams. Hann var yfirvegaður í kappakstrinum og kláraði dæmið vel, langt á undan liðsfélaga sínum Pastor Maldonado sem lauk mótinu í sextánda sæti og hring á eftir.
Mercedes-liðið vill að öllum líkindum gleyma þessari mótshelgi sem fyrst. Michael Schumacher ók utan í framvæng Jean-Eric Vergne í fyrstu beygju og sprengdi afturdekk. Schumacher lauk svo keppni snemma eftir að hafa brotið af sér í brautinni. Hann þarf að heimsækja dómarana nú eftir mótið. Nico Rosberg var í vandræðum líka og lauk mótinu aðeins í ellefta sæti.
Þrjú mót eru eftir af heimsmeistarakeppninni. Næst verður keppt í Abú Dhabi 4. nóvember.
Nr. | Ökuþór | Lið /Vél | Hringir | Tími |
1 | Sebastian Vettel | Red Bull/Renault | 60 | 1:31'10.744 |
2 | Fernando Alonso | Ferrari | 60 | |
3 | Mark Webber | Red Bull/Renault | 60 | |
4 | Lewis Hamilton | McLaren/Mercedes | 60 | |
5 | Jenson Button | McLaren/Mercedes | 60 | |
6 | Felipe Massa | Ferrari | 60 | |
7 | Kimi Räikkönen | Lotus/Renault | 60 | |
8 | Nico Hülkenberg | Force India/Mercedes | 60 | |
9 | Romain Grosjean | Lotus/Renault | 60 | |
10 | Bruno Senna | Williams/Renault | 60 | |
11 | Nico Rosberg | Mercedes | 60 | |
12 | Paul Di Resta | Force India/Mercedes | 60 | |
13 | Daniel Ricciardo | Toro Rosso/Ferrari | 60 | |
14 | Kamui Kobayashi | Sauber/Ferrari | 60 | |
15 | Jean-Eric Vergne | Toro Rosso/Ferrari | 59 | |
16 | Pastor Maldonado | Williams/Renault | 59 | |
17 | Vitaly Petrov | Caterham/Renault | 59 | |
18 | H.Kovalainen | Caterham/Renault | 59 | |
19 | Charles Pic | Marussia/Cosworth | 59 | |
20 | Timo Glock | Marussia/Cosworth | 58 | |
21 | N.Karthikeyan | HRT/Cosworth | 58 | |
22 | M.Schumacher | Mercedes | 55 |