Þýski ökuþórinn Nico Hulkenberg mun aka Sauber-bíl á næsta ári. Þetta staðfesti liðið í gær en þjóðverjinn hefur verið orðaður við Sauber síðan Sergio Perez tilkynnti að hann væri á förum.
Hulkenberg ekur nú fyrir Force India-liðið í Formúlu 1. Hann ók áður fyrir Williams árið 2010 með góðum árangri. Eftirminnilegast er þegar hann náði ráspól í brasilíska kappakstrinum það árið við erfiðar aðstæður.
"Hann hefur sýnt að ef tækifærið gefst hefur hann hæfileika til að grípa það," sagði Monisha Kaltenborn, liðstjóri Sauber-liðsins. "Við höfum fylgst náið með honum um nokkurt skeið og árangur hans hefur verið mjög aðlaðandi."
Sjálfur er Hulkenberg spenntur að keppa fyrir Sauber á næsta ári. "Liðið er í góðri stöðu og mjög keppnisfært. Auk þess hafa ungir ökumenn yfirleitt blómstrað hjá Sauber."
Hulkenberg er 25 ára gamall og hefur staðið sig mjög vel um borð í Force India-bílnum í dag. Liðsfélagi hans er Paul di Resta en þeir hafa háð mikla baráttu innbirðis.
Sauber-liðið hefur ekki staðfest hver liðsfélagi Hulkenberg verður á næsta ári. Það verður þó að teljast líklegt að Kamui Kobayashi haldi sínu sæti.
Hulkenberg ekur fyrir Sauber 2013
