Veiði

Haustveiðin brást í Tungufljóti

Þessi tólf punda lax veiddist í Syðra-Hólma laust fyrir miðjan september. Steinsuga virðist hafa tekið sinn toll.
Þessi tólf punda lax veiddist í Syðra-Hólma laust fyrir miðjan september. Steinsuga virðist hafa tekið sinn toll. Mynd / Garðar Örn Úlfarsson
Vonbrigði eru hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur með veiðina úr Tungufljóti í Skaftárhreppi þetta tímabilið. Nokkuð af fiski mun enn hafa beðið uppgöngu úr jökulvatninu þegar veiðinni lauk.

Um þetta er fjallað á vef Stangaveiðifélagsins, svfr.is:

"Veiðin í Tungufljóti í Skaftafellssýslu var frekar róleg þetta haustið. Megin ástæðuna má rekja til aðstæðna því nokkuð var af sjóbirtingi undir lok veiðitímans.

Það vantaði sárlega vatnavexti í Tungufljótið í októbermánuði, en það er forsendan fyrir því að viðunandi lokatölur náist úr fljótinu. Þó komu nokkur skot sem minntu á það hversu mikil veiði getur orðið í Tungufljóti þegar að aðstæður eru góðar, og margir mjög vænir birtingar í aflanum. En heilt yfir litið var veiðin úr fljótinu með minna móti.

Heildarveiðin að þessu sinni var 273 sjóbirtingar, 49 laxar og 38 bleikjur. Þar af á vorveiðin í apríl og maí 139 urriða, 5 bleikjur og 6 hoplaxa. Þetta skilur eftir sumar- og haustveiði upp á 134 sjóbirtinga, 43 laxa og 33 bleikjur.



Veiðin skiptist þannig eftir mánuðum:

Apríl - maí: 139 sjóbirtingar/urriðar, 6 laxar og 5 bleikjur

júní; 13 bleikjur

júlí; 13 sjóbirtingar/urriðar, 9 bleikjur

ágúst; 10 sjóbirtingar/urriðar, 15 laxar og 8 bleikjur

september; 55 sjóbirtingar/urriðar, og 14 laxar

október; 56 urriðar/sjóbirtingar, og 3 bleikjur

Líkt og áður segir var það haustveiðin sem brást að þessu sinni, en löngum stundum var fljótið afar vatnslítið og veður stillt og bjart. Í þannig aðstæðum er lítil veiðivon í Tungufljóti, en samkvæmt árnefndarmönnum sem lokuðu ánni var talsvert af sjóbirtingi í vatnamótunum við Syðri-Hólma. Sá fiskur beið greinilega eftir vatnavöxtum til að ganga fljótið og því miður náðist það ekki inn á veiðitíma að þessu sinni.

Venju samkvæmt voru hrikalegir sjóbirtingar í afla veiðimanna í Tungufljóti. Stærsti birtingurinn að þessu sinni var veiddur þann 12. október, og var hann 9.3 kíló og 92 sentimetrar. Veiddist sá stóri í Grafarvaði líkt og oft er með stærstu sjóbirtingana úr Tungufljóti. Annars var talsvert af sjóbirtingum sem mældust 80-90 sentimetra langir, og margir hverjir í mjög góðum holdum.

Sem fyrr bar nokkuð á Steinsugubitum á stærri sjóbirtingnum, og löngu ljóst að veiðimenn sem stunda svæðin fyrir austan þurfa að sætta sig við að sugan er komin til að vera. Það sorglega er hins vegar að veiðiréttareigendur og eftirlitsaðilar virðast lítið geta gert til að rannsaka áhrif þessara ógeðfelldu kvikinda á sjóbirtingsstofnana eystra. Er það miður."

Svo segir á svfr.is. Þess má geta að sum holl náðu að hitta á ágætis veiði í haust og fóru sátt úr Tungufljóti. Hollin þar sem veiðin náðist ekki á strik voru þó fleiri eins og umfjöllunin hér að framan gefur til kynna. Ennfremur má nefna að 96 sentímetra lax veiddist á flugu í Klapparhyl 13. ágúst. Hann var vigtaður 6,7 kíló samkvæmt veiðibókinni.

gar@frettabladid.is






×