Veiði

Breiðdalsá: Meðalþyngdin 10 pund í sumar!

Svavar Hávarðsson skrifar
Efri-Beljandi er stórkostlegur veiðistaður, en aðeins lúnknir veiðimenn ná þarna árangri.
Efri-Beljandi er stórkostlegur veiðistaður, en aðeins lúnknir veiðimenn ná þarna árangri. Mynd/Strengir
Með nútíma tækni gefst tækifæri til þess að fylgjast með veiði í okkar fjölmörgu veiðiám með nýstárlegum hætti. Í byrjun sumars opnaði Veiðimálastofnun Skrínuna, en þar gefst öllum veiðieigendum og leigutökum kostur á að skrá veiði jafn óðum rafrænt um vefinn. Kostir kerfisins eru helst þeir að auka upplýsingastreymi til veiðimanna, þannig að þeir geti skoðað aflabrögð eftir veiðiám, veiðidögum og veiðistöðum hvenær sem þeim lystir. Aðgengi að veiðitölum er þannig stóraukið, öllum til hagsbóta.

Á sama tíma og fleiri eigendur og leigutakar mættu nýta þessa nýju tækni, okkur veiðimönnum til hagsbóta þá verður að hrósa þeim sem hafa tekið þessari tækni opnum örmum. Svo eru það þeir sem fyrir löngu hafa tekið þetta skref, og skal þar nefna sérstaklega hvernig hefur verið staðið að skráningu veiði í Breiðdalsá.

Þröstur Elliðason, og hans fólk hjá veiðiþjónustunni Strengjum, hafa þar verið í forystu, vil ég fullyrða. Þar hefur skráning veiði um nokkurt skeið verið með þeim hætti að alltaf er hægt að nálgast upplýsingar um veiði dagsins á undan, og ekki þarf að fjölyrða um það hagræði sem slíkt hefur í för með sér fyrir veiðimanninn sem heldur til veiða á viðkomandi svæði.

Er óskandi að næsta sumar sjái fleiri sér fært að nýta þessa tækni með áþekkum hætti. Sem dæmi um möguleikana sem rafræn skráning veiði gefur er pistill sem Þröstur Elliða skrifaði inn á vef Strengja fyrir nokkru síðan, en þar gefur hann góða mynd af því hvernig mál þróuðust í sumar ásamt upplýsingum um sumarið 2013.

Þröstur greinir frá því að í Breiðdalsá veiddust 464 laxar sem eru upplýsingar sem koma veiðimönnum ekki á óvart. Það er hins vegar niðurbrot veiðitalnanna sem eru áhugaverðar, svo ekki sé meira sagt.

Þröstur skrifar að megnið af sumarveiðinni í Breiðdalsá var stórlax og meðalþyngdin var um 10 pundin! Í rafrænu veiðibókinni er líka hægt að sjá að laxveiðin byrjaði vel; fyrsta daginn 1. júlí veiddust 9 laxar. Fljótlega fór þó að halla undan fæti er vatn minnkaði í endalausum þurrkum og smálaxagöngur skiluðu sér ekki með stórlaxinum sem lét snemma sjá sig. Enginn dagur í júlí og ágúst var þó laxlausir. Aðeins vorutveir laxlausir dagar í september og þá var öfgunum í hina áttina um að kenna, því þá var áin í skaðræðisflóði eftir miklar rigningar. September var þó besti mánuðurinn með tæplega 200 laxa veiði. Þá var vatn orðið eins og best verður á kosið, ásamt því að litlar smálaxagöngur í bland við spónaveiði gerðu möguleika veiðimanna fjölbreyttari en mánuðina á undan.

Þröstur segir frá því að stórlaxinn var vænn og í góðum holdum, mikið yfir 80 sentimetra. Þrír laxar veiddust sem voru 100 sentimetrar og stærri. „Það fóru ekki margir laxlausir úr ánni því laxarnir dreifðust vel á stangirnar 6-8 og þó það væri ekki oft nema 1-3 laxar á stöngina í holli þá bætti stærðin það upp fyrir veiðimennina," skrifar Þröstur og bætir við upplýsingum sem eru áhugaverðar. Um 55% af veiddum laxi var sleppt; 20% af laxinum var drepinn og þá allt smálax, en restin 25% var tekin í klak yfir veiðitímann og sett í kistur af veiðimönnum sem sérvalinn stórlax til undaneldis."

Þeir sem hyggjast veiða í Breiðdalsá næsta sumar, eða hafa einfaldlega áhuga á að kynna sér staðhætti er bent á veiðibókina góðu á síðu Strengja.

Hér má ennfremur kynna sér þróun veiði í Breiðdalsá allt frá árinu 1982 til ársins 2011.

svavar@frettabladid.is

Mynd/Strengir





×