Deilt um áhættu Óli Kr. Ármannsson skrifar 10. janúar 2012 06:00 Gömul saga og ný er að stjórnmálamenn sjást ekki alltaf fyrir í áhuga sínum á að vinna verkefnum í heimabyggð gagn. Raunar mætti halda því fram að áherslur stjórnmálamanna í vegamálum vegi þungt sem röksemd með því að gera landið allt að einu kjördæmi. Birt var um helgina ítarleg úttekt Pálma Kristinssonar verkfræðings um Vaðlaheiðargöng. Í henni fer hann ekki bara yfir arðsemisútreikninga og forsendur, sem notast hefur verið við, heldur líka umræður um göngin á opinberum vettvangi. Meðal ummæla sem höfð eru eftir fyrsta þingmanni kjördæmisins, Steingrími J. Sigfússyni, ráðherra atvinnumála og fyrrverandi fjármálaráðherra, eru að forsendur verksins séu taldar „eins traustar og getur verið". Og eftir þriðja þingmanni kjördæmisins, Kristjáni L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra og stjórnarmanni í Vaðlaheiðargöngum ehf., að „allir njóti góðs af" verkinu. „Þetta er gert með góðu samkomulagi við heimamenn, sem hafa lýst sig reiðubúna að greiða veggjöld af þessum vegi," sagði hann um miðjan nóvember. Í byrjun þess mánaðar höfðu fulltrúar Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gert alvarlegar athugasemdir við forsendur Vaðlaheiðarganga, bæði í ítarlegum athugasemdum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og á opnum fundi nefndarinnar um göngin. Meðal þess sem FÍB hefur bent á er að allir óvissuþættir vegna ganganna séu vanáætlaðir. Gert sé ráð fyrir sjö prósenta framúrkeyrslu kostnaðar, þótt reynslan sýni að hún vilji hlaupa á tugum prósenta. Eins væri rekstrarkostnaður við innheimtu veggjaldanna vanáætlaður og talinn verða 75 milljónir króna á ári. Til samanburðar sé kostnaðurinn 273 milljónir vegna Hvalfjarðarganga. Og þá á eftir að velta fyrir sér forsendum sem snúa að því hversu viljugt fólk verður til að aka nýju göngin, en gjald í þau á að vera um þúsund krónur, fyrir styttingu ferðar sem nemur rétt rúmlega vegalengdinni milli Selfoss og Hveragerðis. (Þar á milli eru 13 kílómetrar, en göngin eiga að spara 16.) Vafamál hlýtur að teljast að fólk kjósi almennt göngin þegar ekkert er að færð. Vert er að hafa í huga að Hvalfjarðargöngin spara 42 kílómetra bíltúr um Hvalfjörð. Með því að Pálmi Kristinsson, sem meðal annars var ráðgjafi við undirbúning Hvalfjarðarganga og aðalráðgjafi Landssamtaka lífeyrissjóða í viðræðum við stjórnvöld um fjármögnun stórframkvæmda í vegagerð á árinu 2010, hefur lagst á árar með FÍB í gagnrýni á verkið hljóta menn að staldra við og velta fyrir sér hvað ræður för í því að koma göngunum í flýtimeðferð í gervi einkaframkvæmdar, sem þó á að njóta ríkisábyrgðar. Pálmi telur að verkefninu fylgi veruleg fjárhagsleg áhætta og miklar líkur á að ríkissjóður þurfi síðar að taka á sig þungar fjárhagslegar byrðar. Skrifað var undir samkomulag um fjármögnun Vaðlaheiðarganga um miðjan ágúst síðastliðinn og í októberbyrjun voru opnuð tilboð þar sem það lægsta hljóðaði upp á tæpa 8,9 milljarða, 95 prósent af kostnaðaráætlun. Áhugamenn um gerð ganganna telja ekki eftir neinu að bíða. Almenn skynsemi segir hins vegar að málið hljóti að verða tekið til nánari skoðunar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Hlíðarendi – hverfið mitt Freyr Snorrason Skoðun Lukka Sjálfstæðisflokksins Inga María Hlíðar Thorsteinson Skoðun Má skera börn? Magnea Gná Jóhannsdóttir Skoðun Jens er rétti maðurinn í brúna! Anton Berg Sævarsson Skoðun Hver er betri sem formaður Sjálfstæðisflokksins? Þórir Garðarsson Skoðun Stuðningur fyrir börn í vanda getur verið lífsbjörg Stefán Guðbrandsson Skoðun Reykurinn sást löngu fyrir brunann! Davíð Bergmann Skoðun Strandveiðar – nýliðun hægri vinstri Steindór Ingi Kjellberg Skoðun Heilbrigðisyfirvöld með í samtali um hugvíkkandi meðferðir Sara María Júlíudóttir Skoðun Löggjafinn brýtur á skólabörnum (grein 1) Valdís Ingibjörg Jónsdóttir Skoðun
Gömul saga og ný er að stjórnmálamenn sjást ekki alltaf fyrir í áhuga sínum á að vinna verkefnum í heimabyggð gagn. Raunar mætti halda því fram að áherslur stjórnmálamanna í vegamálum vegi þungt sem röksemd með því að gera landið allt að einu kjördæmi. Birt var um helgina ítarleg úttekt Pálma Kristinssonar verkfræðings um Vaðlaheiðargöng. Í henni fer hann ekki bara yfir arðsemisútreikninga og forsendur, sem notast hefur verið við, heldur líka umræður um göngin á opinberum vettvangi. Meðal ummæla sem höfð eru eftir fyrsta þingmanni kjördæmisins, Steingrími J. Sigfússyni, ráðherra atvinnumála og fyrrverandi fjármálaráðherra, eru að forsendur verksins séu taldar „eins traustar og getur verið". Og eftir þriðja þingmanni kjördæmisins, Kristjáni L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra og stjórnarmanni í Vaðlaheiðargöngum ehf., að „allir njóti góðs af" verkinu. „Þetta er gert með góðu samkomulagi við heimamenn, sem hafa lýst sig reiðubúna að greiða veggjöld af þessum vegi," sagði hann um miðjan nóvember. Í byrjun þess mánaðar höfðu fulltrúar Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gert alvarlegar athugasemdir við forsendur Vaðlaheiðarganga, bæði í ítarlegum athugasemdum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og á opnum fundi nefndarinnar um göngin. Meðal þess sem FÍB hefur bent á er að allir óvissuþættir vegna ganganna séu vanáætlaðir. Gert sé ráð fyrir sjö prósenta framúrkeyrslu kostnaðar, þótt reynslan sýni að hún vilji hlaupa á tugum prósenta. Eins væri rekstrarkostnaður við innheimtu veggjaldanna vanáætlaður og talinn verða 75 milljónir króna á ári. Til samanburðar sé kostnaðurinn 273 milljónir vegna Hvalfjarðarganga. Og þá á eftir að velta fyrir sér forsendum sem snúa að því hversu viljugt fólk verður til að aka nýju göngin, en gjald í þau á að vera um þúsund krónur, fyrir styttingu ferðar sem nemur rétt rúmlega vegalengdinni milli Selfoss og Hveragerðis. (Þar á milli eru 13 kílómetrar, en göngin eiga að spara 16.) Vafamál hlýtur að teljast að fólk kjósi almennt göngin þegar ekkert er að færð. Vert er að hafa í huga að Hvalfjarðargöngin spara 42 kílómetra bíltúr um Hvalfjörð. Með því að Pálmi Kristinsson, sem meðal annars var ráðgjafi við undirbúning Hvalfjarðarganga og aðalráðgjafi Landssamtaka lífeyrissjóða í viðræðum við stjórnvöld um fjármögnun stórframkvæmda í vegagerð á árinu 2010, hefur lagst á árar með FÍB í gagnrýni á verkið hljóta menn að staldra við og velta fyrir sér hvað ræður för í því að koma göngunum í flýtimeðferð í gervi einkaframkvæmdar, sem þó á að njóta ríkisábyrgðar. Pálmi telur að verkefninu fylgi veruleg fjárhagsleg áhætta og miklar líkur á að ríkissjóður þurfi síðar að taka á sig þungar fjárhagslegar byrðar. Skrifað var undir samkomulag um fjármögnun Vaðlaheiðarganga um miðjan ágúst síðastliðinn og í októberbyrjun voru opnuð tilboð þar sem það lægsta hljóðaði upp á tæpa 8,9 milljarða, 95 prósent af kostnaðaráætlun. Áhugamenn um gerð ganganna telja ekki eftir neinu að bíða. Almenn skynsemi segir hins vegar að málið hljóti að verða tekið til nánari skoðunar.