Kýrin sem varð að hveiti Sif Sigmarsdóttir skrifar 7. júní 2012 06:00 Hinn 14. október 2009 kvaddi þingmaðurinn David Tredinnick sér hljóðs í breska þinginu. Hann sakaði yfirvöld heilbrigðismála um að líta fram hjá einni stærstu ógn við velferð almennings: tunglinu. Tredinnick sagði að í ákveðinni stöðu hefði tunglið áhrif á heilsu fólks; skaðaði meðgöngur hjá konum; ylli því að blóð storknaði ekki við skurðaðgerðir. Hvað uppskar þingmaðurinn fyrir? Háð? Spott? Brottrekstur úr samfélagi vitiborinna manna? Nei. Honum var fengið sæti í heilbrigðismálanefnd. Íslenski fáninn blakti þar sem hann hékk á trépriki ofan í blómapotti í gluggakistunni. Dreggjar Júróvisjón-partís nokkurra Íslendinga í London kvöldið áður seytluðu um höfuðið. Morgunfréttir breska ríkissjónvarpsins dóluðu þokukenndar á skjánum fyrir framan mig. Ég pírði skyndilega augun. „Dr. Gía Aradóttir“ stóð fyrir neðan skörulega ljóshærða vísindakonu sem fréttamaður tók tali. Ég teygði mig í fánann, ánægð að fá að fagna góðum árangri Íslands á erlendri grundu eftir Júróvisjón-tapið. Gía og samstarfsmenn hennar hjá Rothamsted rannsóknarstofnuninni biðluðu til mótmælenda að standa ekki við hótanir um að skemma erfðabreytt hveiti sem stofnunin ræktaði í rannsóknarskyni. Þau sögðu sjónarmið mótmælenda byggð á misskilningi: það væri rangt að stofnunin ræktaði hveiti í gróðaskyni og að það byggði á genasamsetningu kúa. En allt kom fyrir ekki. Í anda jafnræðis hélt næsti viðmælandi fréttamanns tilfinningaþrungna tölu um hvernig verið væri að rækta Frankensteinískt beljuhveiti til að gera stórfyrirtæki rík og bændur fátæka. Á tímum þar sem forsetaframbjóðendum nægir að taka sér orðið „þjóðaratkvæðagreiðsla“ í munn og það kviknar á geislabaugi yfir höfðinu á þeim á eftirfarandi fullyrðing ef til vill eftir að tryggja mér nornabrennu. En ég tek sénsinn: Ekki eru allar raddir jafnréttháar. (Er þetta brunalykt sem ég finn?) Nýverið hélt umhverfisráðuneytið málþing um erfðabreytta ræktun. Var niðurstaða helstu íslensku vísindamannanna á þá leið að lítil hætta stafaði af henni. Svandís Svavarsdóttir dæmdi málþingið hins vegar misheppnað því „sérfræðingar … áttu sviðið“ á kostnað þeirra sem ekki aðhylltust „sterka vísindahyggju“. Að láta eins og skoðun David Tredinnick á læknisfræði sé jafnrétthá og læknis er rökvilla. Slíkt viðhorf hefur að engu áreiðanlegasta verkfæri sem mannkynið hefur smíðað til að efla þekkingu og greina staðreyndir frá húmbúkki: vísindalega aðferðafræði. Óskilgreind persónuleg tilfinning er ekki jafngild skoðun og kenning studd vísindalegum rannsóknum. Ef svo væri væri jörðin enn flöt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Við getum gert betur Einar Bárðarson Skoðun Einföldun stjórnsýslu sem snerist upp í andhverfu sína Pétur Halldórsson Skoðun Umhverfisráðherra á réttri leið Jóhannes Þór Skúlason Skoðun Staðreyndir um móttöku flóttafólks í Hafnarfirði Margrét Vala Marteinsdóttir Skoðun Þetta varð í alvöru að lögum! Snorri Másson Skoðun Borgar það sig að panta mat á netinu? Jóhann Már Helgason Skoðun Siðferðileg reiði er ekki staðreynd Hilmar Kristinsson Skoðun „Rússland hefur hins vegar ráðist inn í 19 ríki“ Einar Ólafsson Skoðun Samtöl við þá sem hurfu of fljótt Sigurður Árni Reynisson Skoðun Fiktið byrjar ekki sem sjúkdómur Gunnar Salvarsson Skoðun
Hinn 14. október 2009 kvaddi þingmaðurinn David Tredinnick sér hljóðs í breska þinginu. Hann sakaði yfirvöld heilbrigðismála um að líta fram hjá einni stærstu ógn við velferð almennings: tunglinu. Tredinnick sagði að í ákveðinni stöðu hefði tunglið áhrif á heilsu fólks; skaðaði meðgöngur hjá konum; ylli því að blóð storknaði ekki við skurðaðgerðir. Hvað uppskar þingmaðurinn fyrir? Háð? Spott? Brottrekstur úr samfélagi vitiborinna manna? Nei. Honum var fengið sæti í heilbrigðismálanefnd. Íslenski fáninn blakti þar sem hann hékk á trépriki ofan í blómapotti í gluggakistunni. Dreggjar Júróvisjón-partís nokkurra Íslendinga í London kvöldið áður seytluðu um höfuðið. Morgunfréttir breska ríkissjónvarpsins dóluðu þokukenndar á skjánum fyrir framan mig. Ég pírði skyndilega augun. „Dr. Gía Aradóttir“ stóð fyrir neðan skörulega ljóshærða vísindakonu sem fréttamaður tók tali. Ég teygði mig í fánann, ánægð að fá að fagna góðum árangri Íslands á erlendri grundu eftir Júróvisjón-tapið. Gía og samstarfsmenn hennar hjá Rothamsted rannsóknarstofnuninni biðluðu til mótmælenda að standa ekki við hótanir um að skemma erfðabreytt hveiti sem stofnunin ræktaði í rannsóknarskyni. Þau sögðu sjónarmið mótmælenda byggð á misskilningi: það væri rangt að stofnunin ræktaði hveiti í gróðaskyni og að það byggði á genasamsetningu kúa. En allt kom fyrir ekki. Í anda jafnræðis hélt næsti viðmælandi fréttamanns tilfinningaþrungna tölu um hvernig verið væri að rækta Frankensteinískt beljuhveiti til að gera stórfyrirtæki rík og bændur fátæka. Á tímum þar sem forsetaframbjóðendum nægir að taka sér orðið „þjóðaratkvæðagreiðsla“ í munn og það kviknar á geislabaugi yfir höfðinu á þeim á eftirfarandi fullyrðing ef til vill eftir að tryggja mér nornabrennu. En ég tek sénsinn: Ekki eru allar raddir jafnréttháar. (Er þetta brunalykt sem ég finn?) Nýverið hélt umhverfisráðuneytið málþing um erfðabreytta ræktun. Var niðurstaða helstu íslensku vísindamannanna á þá leið að lítil hætta stafaði af henni. Svandís Svavarsdóttir dæmdi málþingið hins vegar misheppnað því „sérfræðingar … áttu sviðið“ á kostnað þeirra sem ekki aðhylltust „sterka vísindahyggju“. Að láta eins og skoðun David Tredinnick á læknisfræði sé jafnrétthá og læknis er rökvilla. Slíkt viðhorf hefur að engu áreiðanlegasta verkfæri sem mannkynið hefur smíðað til að efla þekkingu og greina staðreyndir frá húmbúkki: vísindalega aðferðafræði. Óskilgreind persónuleg tilfinning er ekki jafngild skoðun og kenning studd vísindalegum rannsóknum. Ef svo væri væri jörðin enn flöt.