Vitorðsríkin Ólafur Þ. Stephensen skrifar 21. júlí 2012 06:00 Enn heldur blóðbaðið í Sýrlandi áfram. Ríkisstjórn Bashars al Assad forseta virðist ekki eiga langt eftir. Í örvæntingunni hefur stjórnarherinn gripið til enn grimmilegri ofbeldisverka en áður. Nú er talið að 17.000 manns hafi fallið í landinu frá því uppreisnin hófst, flestir óbreyttir borgarar. Enn bregzt umheimurinn líka almenningi í Sýrlandi. Í fyrradag beittu Rússland og Kína neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn ályktun, sem kvað á um hertar refsiaðgerðir gegn stjórn Assads og áframhaldandi veru friðargæzluliðs samtakanna í Sýrlandi. Þetta er í þriðja sinn á níu mánuðum sem þessi tvö voldugu vinaríki Assads beita neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir skilvirkar aðgerðir til að binda enda á átökin. Viðbrögð vestrænna ríkja við afstöðu Rússlands og Kína hafa verið hörð. Bandaríkjastjórn orðaði það þannig að ríkin hefðu stillt sér upp „öndvert við söguna" og „öndvert við sýrlenzku þjóðina". Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði að afstaða ríkjanna sem beittu neitunarvaldi myndi hafa afleiðingar fyrir orðspor þeirra í Sýrlandi í framtíðinni, „því að það er enginn vafi á því að Bashar Assad er ekki hluti af framtíð Sýrlands." Mark Lyall Grant, sendiherra Bretlands hjá Sameinuðu þjóðunum, var sömuleiðis harðorður: „Afleiðingar gjörða þeirra eru augljósar," sagði hann. „Meiri blóðsúthellingar og líkur á að allsherjarborgarastyrjöld brjótist út." Utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, sagði í fyrradag að nú stigmagnaðist borgarastríðið í Sýrlandi, þrátt fyrir tilraunir til að finna pólitíska lausn. „Löndin tvö sem beittu neitunarvaldinu bera sérstaka ábyrgð á því getuleysi til aðgerða sem nú liggur fyrir," sagði Støre. Íslenzk stjórnvöld lýstu fyrr í vikunni yfir stuðningi við ályktunartillöguna, sem Kína og Rússland felldu í Öryggisráðinu. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ítrekaði í yfirlýsingu „fordæmingu á framferði sýrlenskra stjórnvalda og síauknar árásir vopnaðra sveita á þeirra vegum á almenna borgara." Ísland hvatti sömuleiðis öll ríki Öryggisráðsins til að sameinast um ályktunardrögin en nefndi hvorki Rússland né Kína í yfirlýsingunni. Íslenzk stjórnvöld hljóta nú að taka undir fordæmingu annarra vestrænna ríkja á framferði Rússlands og Kína í þessu máli. Það stoðar lítið að skamma stjórnina í Damaskus; atburðarásin undanfarið ár sýnir að hún hlustar ekki heldur veður áfram í einhvers konar grimmdaræði. Það er hins vegar full ástæða til að segja ríkjunum, sem í raun eru í vitorði með Assad í fjöldamorðum á óbreyttum borgurum, rækilega til syndanna. Við eigum ekki að láta sérlegan vinskap okkar við hin austrænu stórveldi koma í veg fyrir að íslenzk stjórnvöld segi þeim það sem flestir Íslendingar hugsa í þeirra garð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Enn heldur blóðbaðið í Sýrlandi áfram. Ríkisstjórn Bashars al Assad forseta virðist ekki eiga langt eftir. Í örvæntingunni hefur stjórnarherinn gripið til enn grimmilegri ofbeldisverka en áður. Nú er talið að 17.000 manns hafi fallið í landinu frá því uppreisnin hófst, flestir óbreyttir borgarar. Enn bregzt umheimurinn líka almenningi í Sýrlandi. Í fyrradag beittu Rússland og Kína neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn ályktun, sem kvað á um hertar refsiaðgerðir gegn stjórn Assads og áframhaldandi veru friðargæzluliðs samtakanna í Sýrlandi. Þetta er í þriðja sinn á níu mánuðum sem þessi tvö voldugu vinaríki Assads beita neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir skilvirkar aðgerðir til að binda enda á átökin. Viðbrögð vestrænna ríkja við afstöðu Rússlands og Kína hafa verið hörð. Bandaríkjastjórn orðaði það þannig að ríkin hefðu stillt sér upp „öndvert við söguna" og „öndvert við sýrlenzku þjóðina". Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði að afstaða ríkjanna sem beittu neitunarvaldi myndi hafa afleiðingar fyrir orðspor þeirra í Sýrlandi í framtíðinni, „því að það er enginn vafi á því að Bashar Assad er ekki hluti af framtíð Sýrlands." Mark Lyall Grant, sendiherra Bretlands hjá Sameinuðu þjóðunum, var sömuleiðis harðorður: „Afleiðingar gjörða þeirra eru augljósar," sagði hann. „Meiri blóðsúthellingar og líkur á að allsherjarborgarastyrjöld brjótist út." Utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, sagði í fyrradag að nú stigmagnaðist borgarastríðið í Sýrlandi, þrátt fyrir tilraunir til að finna pólitíska lausn. „Löndin tvö sem beittu neitunarvaldinu bera sérstaka ábyrgð á því getuleysi til aðgerða sem nú liggur fyrir," sagði Støre. Íslenzk stjórnvöld lýstu fyrr í vikunni yfir stuðningi við ályktunartillöguna, sem Kína og Rússland felldu í Öryggisráðinu. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ítrekaði í yfirlýsingu „fordæmingu á framferði sýrlenskra stjórnvalda og síauknar árásir vopnaðra sveita á þeirra vegum á almenna borgara." Ísland hvatti sömuleiðis öll ríki Öryggisráðsins til að sameinast um ályktunardrögin en nefndi hvorki Rússland né Kína í yfirlýsingunni. Íslenzk stjórnvöld hljóta nú að taka undir fordæmingu annarra vestrænna ríkja á framferði Rússlands og Kína í þessu máli. Það stoðar lítið að skamma stjórnina í Damaskus; atburðarásin undanfarið ár sýnir að hún hlustar ekki heldur veður áfram í einhvers konar grimmdaræði. Það er hins vegar full ástæða til að segja ríkjunum, sem í raun eru í vitorði með Assad í fjöldamorðum á óbreyttum borgurum, rækilega til syndanna. Við eigum ekki að láta sérlegan vinskap okkar við hin austrænu stórveldi koma í veg fyrir að íslenzk stjórnvöld segi þeim það sem flestir Íslendingar hugsa í þeirra garð.