Í þáttaröðinni fá áhorfendur að kynnast fjölda nýrra persóna, þar á meðal spýtustráknum Gosa sem glímir við þunglyndi og áfengisfíkn og skrollara með ofurkrafta. Tónlistarmyndböndin skipa enn veigamikinn sess í þáttunum og er eitt þeirra tekið upp í fjórum löndum.
„Ég held að myndbandið gæti verið einn metnaðarfyllsti skets í heimi. Við flugum á milli Íslands, Danmerkur, Englands og Spánar fyrir tuttugu sekúndur í hverju landi. Í Danmörku klifraði ég meðal annars upp á Hafmeyjuna og leið ógeðslega illa með það."
Í öðru tónlistarmyndbandi bregður Steindi sér í gervi gamals manns og tók það sminkuna fjórar klukkustundir að klára verkið. Útkoman var svo góð að móðir Ágústs Bents Sigbertssonar leikstjóra, sem fór með lítið hlutverk í þættinum, þekkti Steinda ekki í sjón.
Inntur eftir því hvort hann eigi sér uppáhaldspersónu í nýju þáttaröðinni segist Steindi halda mikið upp á skrollarann með ofurkraftana.

Steindi horfir á fyrsta þáttinn í góðra vina hópi og kveðst alls ekki kvíðinn enda er hann meðvitaður um að húmorinn kitli ekki alla. „Um leið og þú reynir að geðjast öllum ertu að gera eitthvað rangt. Einu áhyggjurnar eru að útsendingin rofni," segir hann að lokum.
sara@frettabladid.is