Málefnalínurnar skýrast Þorsteinn Pálsson skrifar 15. september 2012 06:00 Stefnuræða forsætisráðherra í vikunni og umræður um hana skýrðu býsna vel málefnalínurnar í pólitíkinni. Hitt verður að draga í efa að umræðan hafi skilið eftir hjá mörgum skýra framtíðarmynd um endurreisnina og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það var engin útideyfa í þeim boðskap forsætisráðherra að mestu máli skipti að samþykkja óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ofurþunginn á þetta mál sagði á hinn bóginn æði margt um skilningsleysi á þeim efnahagslegu viðfangsefnum sem við blasa. Framtíðarhagsmunir þjóðarinnar kalla á nýja stefnumörkun í peningamálunum. Þar hefur stjórnarflokkana greint á. Forsætisráðherra gekk mjög langt í því að jafna þann ágreining. Svo virðist sem stefna VG um að byggja á krónunni og nýjum haftareglum sé að verða ofan á þó að forsætisráðherra tæki fram í einni aukasetningu að skoða mætti hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Þessi skilaboð og þögn forsætisráðherra um viðræðurnar við Evrópusambandið voru mestu tíðindi stefnuumræðunnar. Hér er skýr vísbending um breytta málefnastöðu á taflborði valdanna. Augljóst er að formaður Samfylkingarinnar ætlar ekki að gefa VG ástæðu til að nálgast Sjálfstæðisflokkinn vegna Evrópumálanna. Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins kröfðust tafarlausra slita á aðildarviðræðunum þvert á samþykktir landsfundar flokksins sem gerðar voru með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þeir telja klókara að höfða fremur til flóttafylgis VG en frjálslyndari vængsins í eigin flokki. Um leið virkar þetta eins og vandræðalegt ákall til VG um björgun frá einangrun.Hugmyndafræðilegur ágreiningur Íhaldsaðgerðirnar í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skiluðu framan af verulegum árangri í ríkisfjármálum. Veikleiki ríkisstjórnarinnar kom síðan í ljós þegar sjóðurinn sleppti tökunum: Annars vegar með því að fresta markmiðinu um hallalaus fjárlög. Hins vegar í svokölluðum grískum lausnum sem halda útgjöldum utan við ríkisbókhaldið. Skarpasti hugmyndafræðilegi ágreiningurinn í umræðunni kom fram í rökfastri og málefnalegri gagnrýni formanns Sjálfstæðisflokksins á ríkisfjármálastefnuna. Það þarf ekki sérfræðinga til að sjá hversu ábyrgðarlaust það er að hefja útþenslu á ný áður en jöfnuði er náð. Á sama hátt er glórulaust að ráðstafa söluandvirði ríkiseigna í annað en niðurgreiðslu skulda. Þessi hugmyndafræðilegi ágreiningur var helsta merkið um pólitíska ábyrgð sem fram kom í umræðunum. Formaður Framsóknarflokksins markaði flokki sínum aftur á móti stöðu til vinstri við ríkisstjórnina í ríkisfjármálum. Hann gagnrýndi hana bæði fyrir niðurskurð og viljaleysi til að auka útgjöld í stórum stíl. Sennilega þarf að fara aftur til þess tíma að Jóhanna Sigurðardóttir var í stjórnarandstöðu til að finna samanburð um jafn óábyrg viðhorf til ríkisfjármála. Rödd frjálslyndari arms Samfylkingarinnar heyrðist ekki.Hvaða bil má brúa? Eðlilega hljóta margir að velta því fyrir sér hvaða vísbendingar stefnuumræðan gefur um möguleika flokka til þess að byggja málefnalegar brýr á milli sín. Með öðrum orðum: Hvaða flokkar eiga auðveldast með að mynda ríkisstjórn? Eftir kosningar mun ný skipting þingsæta hafa áhrif á svarið. Persónuleg tengsl og persónuleg óbeit ráða líka nokkru. En sé einungis horft á málefnastöðuna eins og hún birtist í stefnuumræðunni blasir þetta við: Dýpsta hugmyndafræðilega gjáin er á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í ríkisfjármálum. Ganga verður út frá því að formennirnir hafi meint það sem þeir sögðu um þessi efni. Það þýðir að ekki er unnt að brúa það bil eigi báðir að halda höfði. Formaður VG birtist sem pólitískur leiðtogi stjórnarsamstarfsins. Hann lýsti einarðlega því viðhorfi að stjórnarflokkarnir ættu að sameinast með Framsóknarflokknum um að halda Sjálfstæðisflokknum í stjórnarandstöðu. Það gat hann gert vegna þeirrar tilslökunar í Evrópumálum sem fram kom hjá formanni Samfylkingarinnar. Sú málefnalega sveigja ræðst alfarið af því að vinstri armurinn hefur nú bæði tögl og hagldir í flokknum. Þetta þýðir að í Samfylkingunni er verið að ýta þeim til hliðar sem vilja að heildarefnahagsstefnan ráðist af markmiðinu um upptöku evru. Í Sjálfstæðisflokknum er svo verið að ýta þeim til hliðar sem vilja ljúka aðildarviðræðunum. Það er búið í Framsóknarflokknum. Spurningin er: Gæti fólk úr þessum röðum náð saman um heilsteyptari efnahagsstefnu ef það fengi stórlega aukin áhrif á framboðslistum flokka sinna og á Alþingi? Eða er það borin von? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins? Sigurjón Þórðarson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen Skoðun
Stefnuræða forsætisráðherra í vikunni og umræður um hana skýrðu býsna vel málefnalínurnar í pólitíkinni. Hitt verður að draga í efa að umræðan hafi skilið eftir hjá mörgum skýra framtíðarmynd um endurreisnina og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það var engin útideyfa í þeim boðskap forsætisráðherra að mestu máli skipti að samþykkja óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ofurþunginn á þetta mál sagði á hinn bóginn æði margt um skilningsleysi á þeim efnahagslegu viðfangsefnum sem við blasa. Framtíðarhagsmunir þjóðarinnar kalla á nýja stefnumörkun í peningamálunum. Þar hefur stjórnarflokkana greint á. Forsætisráðherra gekk mjög langt í því að jafna þann ágreining. Svo virðist sem stefna VG um að byggja á krónunni og nýjum haftareglum sé að verða ofan á þó að forsætisráðherra tæki fram í einni aukasetningu að skoða mætti hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Þessi skilaboð og þögn forsætisráðherra um viðræðurnar við Evrópusambandið voru mestu tíðindi stefnuumræðunnar. Hér er skýr vísbending um breytta málefnastöðu á taflborði valdanna. Augljóst er að formaður Samfylkingarinnar ætlar ekki að gefa VG ástæðu til að nálgast Sjálfstæðisflokkinn vegna Evrópumálanna. Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins kröfðust tafarlausra slita á aðildarviðræðunum þvert á samþykktir landsfundar flokksins sem gerðar voru með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þeir telja klókara að höfða fremur til flóttafylgis VG en frjálslyndari vængsins í eigin flokki. Um leið virkar þetta eins og vandræðalegt ákall til VG um björgun frá einangrun.Hugmyndafræðilegur ágreiningur Íhaldsaðgerðirnar í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skiluðu framan af verulegum árangri í ríkisfjármálum. Veikleiki ríkisstjórnarinnar kom síðan í ljós þegar sjóðurinn sleppti tökunum: Annars vegar með því að fresta markmiðinu um hallalaus fjárlög. Hins vegar í svokölluðum grískum lausnum sem halda útgjöldum utan við ríkisbókhaldið. Skarpasti hugmyndafræðilegi ágreiningurinn í umræðunni kom fram í rökfastri og málefnalegri gagnrýni formanns Sjálfstæðisflokksins á ríkisfjármálastefnuna. Það þarf ekki sérfræðinga til að sjá hversu ábyrgðarlaust það er að hefja útþenslu á ný áður en jöfnuði er náð. Á sama hátt er glórulaust að ráðstafa söluandvirði ríkiseigna í annað en niðurgreiðslu skulda. Þessi hugmyndafræðilegi ágreiningur var helsta merkið um pólitíska ábyrgð sem fram kom í umræðunum. Formaður Framsóknarflokksins markaði flokki sínum aftur á móti stöðu til vinstri við ríkisstjórnina í ríkisfjármálum. Hann gagnrýndi hana bæði fyrir niðurskurð og viljaleysi til að auka útgjöld í stórum stíl. Sennilega þarf að fara aftur til þess tíma að Jóhanna Sigurðardóttir var í stjórnarandstöðu til að finna samanburð um jafn óábyrg viðhorf til ríkisfjármála. Rödd frjálslyndari arms Samfylkingarinnar heyrðist ekki.Hvaða bil má brúa? Eðlilega hljóta margir að velta því fyrir sér hvaða vísbendingar stefnuumræðan gefur um möguleika flokka til þess að byggja málefnalegar brýr á milli sín. Með öðrum orðum: Hvaða flokkar eiga auðveldast með að mynda ríkisstjórn? Eftir kosningar mun ný skipting þingsæta hafa áhrif á svarið. Persónuleg tengsl og persónuleg óbeit ráða líka nokkru. En sé einungis horft á málefnastöðuna eins og hún birtist í stefnuumræðunni blasir þetta við: Dýpsta hugmyndafræðilega gjáin er á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í ríkisfjármálum. Ganga verður út frá því að formennirnir hafi meint það sem þeir sögðu um þessi efni. Það þýðir að ekki er unnt að brúa það bil eigi báðir að halda höfði. Formaður VG birtist sem pólitískur leiðtogi stjórnarsamstarfsins. Hann lýsti einarðlega því viðhorfi að stjórnarflokkarnir ættu að sameinast með Framsóknarflokknum um að halda Sjálfstæðisflokknum í stjórnarandstöðu. Það gat hann gert vegna þeirrar tilslökunar í Evrópumálum sem fram kom hjá formanni Samfylkingarinnar. Sú málefnalega sveigja ræðst alfarið af því að vinstri armurinn hefur nú bæði tögl og hagldir í flokknum. Þetta þýðir að í Samfylkingunni er verið að ýta þeim til hliðar sem vilja að heildarefnahagsstefnan ráðist af markmiðinu um upptöku evru. Í Sjálfstæðisflokknum er svo verið að ýta þeim til hliðar sem vilja ljúka aðildarviðræðunum. Það er búið í Framsóknarflokknum. Spurningin er: Gæti fólk úr þessum röðum náð saman um heilsteyptari efnahagsstefnu ef það fengi stórlega aukin áhrif á framboðslistum flokka sinna og á Alþingi? Eða er það borin von?
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun