Plata ensku söngkonunnar Adele, 21, selst enn eins og heitar lummur tæpum tveimur árum eftir að hún kom út. Hún var sú mest selda hjá iTunes í Bandaríkjunum árið 2012 og sló þar við nýjum útgáfum frá hinum vinsælu Taylor Swift og Mumford & Sons.
Listinn var tekinn saman yfir þær plötur sem var oftast halað niður á tónlistarveitunni. Vinsælasta lagið var Call Me Maybe með Carly Rae Jespen og í öðru sæti var Somebody That I Used To Know með Gotye. Í því þriðja var We Are Young með Fun, Payphone með Maroon 5 í fjórða og í fimmta sætinu var Starships með Nicki Minaj.
Adele hlaut sex Grammy-verðlaun fyrr á árinu fyrir 21. Nýlega hlaut lag hennar Skyfall, úr samnefndri Bond-mynd, tilnefningar til Screen Actors Guild- og Golden Globe-verðlaunanna. Líklegt má telja að lagið hljóti einnig Óskarstilnefningu. „Takk fyrir að sýna mér þennan heiður að leyfa mér að taka þátt í Golden Globe-verðlaununum. Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi komast nálægt einhverju slíku," sagði Adele.
21 með Adele vinsælust á iTunes
