Það verður mikið um dýrðir í íþróttahúsi Fram í dag enda boðið til sannkallaðrar handboltaveislu. Tveir leikir í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta.
Framarar búa svo vel að eiga lið í úrslitum bæði í karla- og kvennaflokki. Klukkan 17.00 mætast Fram og Stjarnan í úrslitaeinvígi N1-deildar kvenna en staðan í því einvígi er 1-1. Stjörnustelpur unnu fyrsta leikinn í Safamýri en Fram svaraði með stórsigri í Garðabæ.
Klukkan 19.45 er komið að karlaeinvíginu en þar taka Framarar á móti Haukum en Framarar leiða einvígið, 1-0. Þeir unnu tveggja marka sigur í viðureign liðanna í Hafnarfirði á mánudagskvöldið.
Báðir leikirnir verða í beinni textalýsingu hér á Vísi.

