Formúla 1

Alonso of upptekinn af sálfræðstríðinu

Birgir Þór Harðarson skrifar
Alonso þarf að einbeita sér meira að akstrinum, segir Helmut Marko, ætli hann að vinna Vettel.
Alonso þarf að einbeita sér meira að akstrinum, segir Helmut Marko, ætli hann að vinna Vettel. nordicphotos/afp
Helmut Marko, ráðgjafi Red Bull í kappakstursmálum, segir Fernando Alonso hugsa hlutina of mikið og gera of mikið til þess að ná sálfræðilegu taki á keppinautinum. Þeir Sebastian Vettel, ökuþór Red Bull, og Alonso, ökuþór Ferrari, háðu baráttu um heimsmeistaratitilinn í fyrra.

Marko sagði við tímarit Red Bull að Alonso hefði látið truflast af orðaskaki utan brautarinnar og orðið upptekinn af því að svara til baka. Vettel, á hinn bóginn, hafi einbeitt sér eingöngu að akstrinum.

„Vettel ók nánast óaðfinnanlega í fyrra. En hann er náttúrlega einstakur. Það er bara þannig," sagði Marko. „Eftir sumarfríið þá virðist hann alltaf ná miklu betri árangri en fyrir það."

„Ég veit ekki hvernig hann gerir þetta en það er ómögulegt að það sé tilviljun. Þess vegna er vert að skoða hvernig hann undirbýr sig, hvernig hann einangrar sig algerlega frá heiminum og á því talsvert inni þegar orka hinna er að þrotum komin. Alonso, til dæmis, er alltof upptekin af stjórnmálunum og að koma með hnittin tilsvör."

Marko segir Vettel aftur á mót ekki lesa neina miðla, hvorki á prenti eða á Netinu. Þannig nær hann að einbeita sér að verkefninu framundan. „Það er að gera bílinn fljótari og liðið eins gott og mögulegt er."

Og Marko hélt áfram að blammera Ferrari-liðið og sagði að hefði Enzo Ferrari, stofnandi liðsins, enn verið stjórnvölinn væri ekki tekið létt á „dræmum" árangri liðsins undanfarin ár. „Ég held að Enzo Ferrari hefði verið mun kröfuharðari á liðið sitt eftir tapið gegn Vettel í fyrra, heldur en Alonso og Domenicali eru."

„Svo mundi hann berja starfsmennina sína áfram þar til þeir myndu vinna okkur," sagði Marko sem ók í Formúlu 1 í tíð Enzo Ferrari. „En Alonso er bara of upptekinn af sálfræðistríðinu. Þegar hann til að mynda sagði: „Ég er í keppni við Hamilton, ekki Vettel," og „Adrian Newey er keppinautur minn." Við báðum Vettel einfaldlega að hunsa þetta allt."

Vettel og Alonso sýndu báðir afburðaakstur síðasta sumar en Marko telur Vettel hafa beitt betri aðferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×