Veiði

Mikil ásókn í Hítará en minna sótt um Norðurá

Veitt í Hítará.
Veitt í Hítará. Mynd / Bjarni
Gríðarleg ásókn er í fyrstu dagana í Hítará I. Þetta kemur fram í máli Bjarna Júlíussonar, formanns SVFR, á Facebook-síðu félagsins.

Á síðunni greinir Bjarni frá úthlutunarvinnunni sem nú er í fullum gangi en félagsmenn í Stangaveiðifélaginu höfðu frest til 28. desember til að skila umsóknum um veiðileyfi. Á þeim svæðum þar sem fleiri en einn sóttu um þarf að draga um það hvor fær veiðileyfið og fer drátturinn fram á fimmtudaginn og föstudaginn í næstu viku.

„Það er gríðarleg ásókn í fyrstu dagana í Hítará I. Það er nokkuð ljóst að það verður dregið um öll hollin frá 18.júní - 4.júlí. Í sumum tilvikum eru 4 - 5 hópar að slást um sömu dagana," skrifar Bjarni. „Það er heldur minni ásókn í september og líklega munum við bjóða einhverjum hópum sem verða undir að færa sig þangað."

Minna sótt um Norðurá en áður


Af öðrum svæðum segir Bjarni að mikil ásókn sé í Straumana en „við áttum svo sem alveg von á því. Þar mun líka þurfa að draga í einhverjum tilvikum. Í Tungufljóti er talsvert sótt um fyrstu dagana og svo aftur í október. Þar þarf að draga, en tiltölulega lítil eftirspurn eftir septemberdögum."

Að sögn Bjarna er minna sótt um í Norðurá en áður en „ það þarf þó að draga þar á 2 - 3 stöðum."

Talsvert er sótt um Gufudalsá en í Fáskrúð, þar sem stundum hefur þurft að draga, verður líklega ekki dregið að þessu sinni. Bjarni segir að einni sé ágætlega sótt um Bíldsfellið í Soginu en þó ekki eins og í fyrra. „ Líklega selst það nú upp, og einhvers staðar þarf að draga," skrifar Bjarni.

trausti@frettabladid.is








×