Þjóðverjinn Adrian Sutil mun aka fyrir Force India í kappökstrum ársins í ár en hann var staðfestur sem keppnisökuþór liðsins í dag. Jules Biachi þarf því að gera sér hlutverk tilraunaökuþórs að góðu.
„Ég á annað tækifæri skilið," sagði Sutil við blaðamenn í Barcelona í dag. Hann var látinn fara frá Force India í lok árs 2011 eftir að hafa verið ákærður fyrir líkamsárás fyrr um árið. „Allir geta gert mistök í lífinu."
Sutil var svo fyrir réttu ári síðan dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu hárrar fjársektar fyrir framferði sitt. Hann mun því keppa í Formúlu 1 á skilorði, en ekki sá fyrsti.
Það var nefninlega Michael Schumacher sem fékk sitt fyrsta tækifæri í Formúlu 1 árið 1991 eftir að Bertrand Gachot var fangelsaður fyrir að sprauta táragasi á leigubílstjóra í London.
