Dagur þrjú á enda

Margt hefur gengið á í dómssalnum þessa þrjá daga og verjandinn Barry Roux hefur farið hamförum við að gagnrýna lögreglurannsóknina og krefst þess að Pistorius verði látinn laus. Verjandinn sagði að Pistorius hefði ekki haft neina ástæðu til að myrða kærustu sína, Reevu Steenkamp, og samband þeirra hafi verið ástríkt.
Roux vísaði því einnig alfarið á bug að meintar hótanir Pistoriusar í garð manns á kappakstursbraut væru á rökum reistar. Hann hefði tekið óheppilega til orða og hefði ekki verið alvara þegar hann sagðist ætla að brjóta fætur mannsins.
Gert var stutt hlé um klukkan hálf eitt vegna „yfirvofandi hættu utandyra" en skömmu síðar var haldið áfram án frekar útskýringa.
Pistorius virtist þreyttur og blaðamenn á staðnum segja að hann hafi virst sofandi á köflum. Saksóknarinn Gerry Nel tók til máls og sagði framburð Pistoriusar ekki í samræmi við sönnunargögn á staðnum
Hann segir ljóst að Pistorius hafi framið morð af yfirlögðu ráði og vilji halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Frásagnir hans af morðhótunum í sinn garð eigi ekki við rök að styðjast og engin gögn sýni fram á að þær hafi verið tilkynntar. Pistorius hafi logið til um þær til að fá samúð dómarans.
Gæsluvarðhaldsréttarhöldin halda áfram á morgun og er nær ómögulegt að segja til um hver ákvörðun dómarans verður. Ekki hefur enn verið tilkynnt um hvort lögreglumaðurinn Hilton Botha haldi áfram að fara fyrir rannsókninni, en hann er sjálfur til rannsóknar vegna gruns um morðtilraun.
Tengdar fréttir

Pistorius-lögga rannsökuð vegna morðtilraunar
Mál spretthlauparans Oscars Pistorius er farið að minna á atburðarás reyfara, en nýjasti snúningur málsins er sá að lögreglumaðurinn Hilton Botha, sá sem hefur farið fyrir rannsókninni, sætir nú rannsókn fyrir morðtilraun.

Nike segir tímabundið upp samningi við Pistorius
Íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur sagt tímabundið upp samningi sínum við frjálsíþróttakappann Oscar Pistorius. Suður-Afríkumaðurinn er sakaður um að hafa myrt kærustu sína að yfirlögðu ráði.

Dómari ákveður í dag hvort Pistorius verði sleppt úr haldi
Í dag mun dómari taka ákvörðun um hvort spretthlauparanum Oscar Pistorius verði sleppt úr haldi gegn tryggingu eða ekki.

Útgáfa lögreglunnar reyndist þokukennd
Rannsóknarlögreglumaðurinn Hilton Botha viðurkenndi að ekkert hefði fundist við rannsókn málsins sem afsannað gæti frásögn Oscars Pistorius af atburðum næturinnar 14. febrúar, þegar hann skaut kærustu sína Reevu Steenkamp.