Danski sóknarmaðurinn Nicklas Bendtner má ekki spila með danska landsliðinu næstu sex mánuðina eftir að hann var tekinn fyrir ölvunarakstur um helgina.
Danska knattspyrnusambandið ákvað þetta í dag og tilkynnti á heimasíðu sinni. Bendtner baðst afsökunar á Twitter-síðu sinni en sagði þó að um „vægt" tilfelli ölvunaraksturs hafi verið að ræða.
„Kæru vinir. Í gær var ég bókaður fyrir vægt tilfelli af ölvunarakstri. Þetta var rólegt kvöld en ég bið alla vini mína og aðdáendur afsökunar. Það er ekki í lagi að keyra eftir að hafa drukkið áfengi. Ég tek fulla ábyrgð á þessu," skrifaði Bendtner.
Bendtner er á mála hjá Arsenal á Englandi en spilar nú sem lánsmaður hjá Juventus á Ítalíu. Atvikið átti sér þó stað í Kaupmannahöfn.
Bendtner mun missa af leikjum danska liðsins gegn Tékklandi, Búlgaríu og Armeníu í undankeppni HM 2014.
Bendtner í sex mánaða landsliðsbann
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
