Honda hefur gefið það út að þeir hyggjast framleiða Formúlu 1-vélar á nýjan leik en japanski bílaframleiðandinn hætti í Formúlu 1 í kjölfar efnahagserfiðleika í lok árs 2008. Ross Brawn tók þrotabúið yfir og gerði Brawn GP að heimsmeisturum árið 2009. Mercedes keypti svo liðið og hefur það ekið undir merkjum þýska bílaframleiðandans síðan 2010.
Á næsta ári munu taka í gildi nýjar tæknireglur í Formúlu 1 og verða vélarnar minnkaðar í V6 með forþjöppu. Honda framleiddi einmitt bestu túrbó-vélarnar þegar slíkt var leyft síðast.
„Það er ekkert til að kynna í augnablikinu og ég get í raun ekki sagt neitt meira," sagði Whitmarsh. „Við erum með samning til næstu þriggja ára við Mercedes-Benz um vélar og munum nota Benz-vélar á næsta ári. Við höfum átt mjög gott samstarf með þeim."
Svar Whitmarsh er talið segja meira enda var hann spurður um vélakosti McLaren-liðsins árin 2014 og 2015. Hann vék hins vegar aldrei að síðara árinu.
Þrír vélaframleiðendur munu þurfa að skaffa öllum ellefu keppnisliðunum vélar á næsta ári. Það eru Ferrari, Renault og Mercedes. Árið 2015 bætist Honda við í leikinn. „Við höfum heyrt sögur af Porsche, Hyundai og Honda sem vilja koma og vera með. Þessir aðilar hljót að vera opnir fyrir samstarfi," sagði Whitmarsh.
