Körfubolti

Clippers sópaði Lakers | Tólfti sigur New York í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant í baráttunni.
Kobe Bryant í baráttunni. Mynd/AP
LA Clippers hafði betur gegn grönnum sínum í LA Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í kvöld, 109-95.

Með sigrinum náði Clippers að tryggja sér efsta sæti Kyrrahafsriðilsins í Austurdeildinni en þetta er í fyrsta sinn sem liðið vinnur þann titil í sögu félagsins.

Clippers hefur lengi staðið í skugga Lakers en ekki þetta tímabilið. Clippers náði nefnilega að vinna alla fjóra leiki sína gegn Lakers í ár og „sópa" þannig stóra bróður.

Blake Griffin var með 24 stig fyrir Clippers og tólf fráköst en Chris Paul var með 24 stig og tólf stoðsendingar.

Hjá Lakers voru Kobe Bryant og Dwight Howard með 25 stig hvor en þeir Steve Nash og Metta World Peace voru báðir frá vegna meiðsla.

Lakers er nú dottið fyrir neðan Utah og í níunda sæti Vesturdeildarinnar. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Þá vann New York sinn tólfta sigur í röð er liðið mætti sterku liði Oklahoma City á útivelli og vann, 125-120. Carmelo Anthony fór sem fyrr á kostum og skoraði 36 stig.

Hann hefur því skorað alls 167 stig í síðustu fjórum leikjum New York sem virðist til alls líklegt í úrslitakeppninni sem er fram undan.

Anthony hefur nú tekið fram úr Kevin Durant í kapphlaupinu um stigakóngstitilinn en Durant skoraði 27 stig í kvöld.

New York er í öðru sæti Austurdeildarinnar en Oklahoma er í öðru sæti í vestrinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×