Alda Leif Jónsdóttir leikmaður Snæfells er með slitið krossband á vinstra hné en þetta kom í ljós eftir segulómskoðun. Alda Leif heldur undir hnífinn í byrjun maí og ætlar sér að koma inní næsta tímabil ef allt gengur að óskum.
Frá þessu er greint á heimasíðu Snæfells. Alda Leif skyldi eftir sig stórt skarð í Snæfellsliðinu en hún var með 10 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar í leik í vetur. Var ljóst að Snæfellsliðið saknaði Öldu Leifar í undanúrslitaeinvíginu gegn KR sem Vesturbæjarliðið vann.
Alda Leif hafði áður á ferli sínum slitið krossband á hægra hné og var hún með rof í örvef að plaga hana í allan vetur. Alda Leif sleit svo krossbandið á æfingu þegar hún var að gera sig tilbúna fyrir undanúrslitaleikina gegn KR.

