Matthías Vilhjálmsson lagði upp mark Start þegar nýliðarnir gerðu 1-1 jafntefli á móti norsku meisturunum í Molde. Molde hefur unnið norska meistaratitilinn undir stjórn Ole Gunnar Solskjær undanfarin tvö ár en á enn eftir að vinna leik á þessari leiktíð.
Alejandro Castro kom Start í 1-0 á 43. mínútu eftir að hafa fengið laglega sendingu inn fyrir frá Matthíasi.
Mattias Moström jafnaði leikinn fyrir Molde aðeins tveimur mínútum síðar.
Matthías og Guðmundur Kristjánsson léku allan leikinn fyrir Start, Guðmundur á miðjunni og Matthías í framlínunni. Guðmundur nældi sér í gult spjald undir lok leiksins.
Molde hefur aðeins fengið tvö stig úr fyrstu sjö leikjum sínum og situr eitt á botni deildarinnar.
