Körfubolti

Miami og Memphis áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP

Oklahoma City og Chicago Bulls eru bæði úr leik í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta eftir að hafa tapað rimmum sínum 4-1.

Miami vann Chicago, 94-91, þar sem Dwyane Wade fór á kostum þrátt fyrir að hafa átt í vandræðum með hnéð sitt. Hann skoraði átján stig og var lykilmaður í viðsnúningi leiksins er Miami náði að komast í forystu eftir að hafa verið mest ellefu stigum undir í seinni hálfleik.

Leikurinn var kaflaskiptur en Miami kláraði leikinn með frábærum fjórða leikhluta. LeBron James skoraði 23 stig og gerði sitt, eins og vanalega.

Chicago fékk tækifæri til að tryggja sér framlengingu en þeir Nate Robinson og Jimmy Butler klikkuðu báðir á þriggja stiga skoti í lokasókn sinni í leiknum.

Carlos Boozer skoraði 24 stig fyrir Chicago og var með fjórtán stig. Derrick Rose var ekki með og þetta var 99. leikurinn í röð þar sem að hann er fjarverandi.

Memphis komst áfram í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir sigur á Oklahoma City, 88-84.

Zach Randolph var með 28 stig og fjórtán fráköst og Mike Conley bætti við þrettán stigum og ellefu stoðsendingum.

Kevin Durant náði sér ekki á strik. Hann skoraði að vísu 21 stig en nýtti aðeins fimm af 21 skoti sínu utan af velli, þar af mikilvægu skoti þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum.

Það var lengi vel ljóst í hvað stefndi hjá Oklahoma City, besta liði Vesturdeildarinnar í vetur. Liðið saknaði Russell Westbrook sem meiddist í úrslitakeppninni. Oklahoma City vann aðeins tvo leiki af átta eftir meiðslin hans.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×