Rafael Nadal, sem oft hefur verið kallaður konungur leirsins, sigraði í dag á opna franska mótinu í tennis. Nadal hefur verið nær ósigrandi á leirvöllum á undanförnum árum og varð engin breyting þar á um helgina en hann sigraði samlanda sinn David Ferrer í úrslitaleik í dag.
Nadal mætti erkifjanda sínum Novak Djokovic í undanúrslitum mótsins og tókst honum að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum með naumindum.
Ferrer átti hinsvegar engin svör við frábærum leik Nadal í úrslitaleiknum en sá síðarnefndi kláraði leikinn í þremur settum 6-3, 6-2 og 6-3.
Þetta er tólfti risatitill Nadal á ferlinum en hann hefur unnið opna franska mótið átta sinnum. Nadal er fyrsti maðurinn í sögunni sem vinnur sama risamótið átta sinnum.
