Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði sitt sjöunda mark fyrir Norrköping í sænsku deildinni í vetur er lið hans gerði jafntefli, 2-2, á útivelli gegn Kalmar.
Gunnar Heiðar jafnaði leikinn á 60. mínútu og lið hans komst yfir skömmu síðar. Kalmar jafnaði þó leikinn ellefu mínútum fyrir leikslok. Norrköping er í áttunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar.
Hjálmar Jónsson var í byrjunarliði IFK Göteborg og lék allan leikinn í markalausu jafntefli gegn Djurgarden. Hjörtur Logi Valgarðsson sat sem fyrr á bekknum hjá Göteborg.
Ari Freyr Skúlason var í liði Sundsvall og lék allan leikinn er Sundsvall tapaði á heimavelli, 2-4, gegn Assyriska. Jón Guðni Fjóluson sat allan tímann á bekknum hjá Sundsvall sem er í þriðja sæti deildarinnar.

