Markahæsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu frá upphafi, Margrét Lára Viðarsdóttir, hefur verið iðinn við kolann með Kristianstad á tímabilinu.
Margrét Lára skoraði eina mark liðsins í 3-1 tapi gegn Örebro. Hún hefur nú skorað sjö mörk í deildinni og er í fimmta sæti yfir markahæstu leikmenn.
Margrét Lára hefur skorað mörkin sín sjö í ellefu leikjum. Þá hefur hún lagt upp þrjú mörk. Ekkert marka henna hefur komið úr vítaspyrnu.
Christen Press hjá Tyresö er markahæst í deildinni með tólf mörk í tíu leikjum en hún hefur auk þess lagt upp fjögur mörk.
Jodie Taylor hjá Kopparbergs/Gautaborg er í öðru sæti með tíu mörk í jafnmörgum leikjum. Hin brasilíska Marta hjá Tyresö hefur skorað níu mörk og lagt upp sjö. Í fjórða sæti er Anja Mittag hjá LdB Malmö en hún skoraði tvö mörk í 2-2 jafnteflinu gegn Tyresö í gær.
Margrét Lára fimmta markahæst
