Völsungur er enn án sigurs í 1. deildinni en Húsvíkingar misstu tvo menn af velli með rautt spjald í kvöld er liðið tapaði fyrir Víkingi, 3-1, sem kom sér um leið upp í annað sæti deildarinnar.
Haukar töpuðu óvænt fyrir Tindastóli norðan heiða í kvöld og þá hafði KA betur gegn Þrótti í Laugardalnum.
Sigurður Egill Lárusson kom Víkingum yfir á sextándu mínútu á Húsavíkurvelli en Sigvaldi Þór Einarsson fékk að líta fyrra rauða spjaldið í leiknum um stundarfjórðungi síðar.
Manni færri náðu Völsungar samt að jafna metin með marki Halldórs Orra Hjaltasonar í upphafi síðari hálfleiks en aðeins tveimur mínútum síðar endurheimti Dofri Snorrason forystuna fyrir gestina úr Fossvoginum.
Síðari brottvísunina fékk svo Guðmundur Óli Steingrímsson á 65. mínútu en Víkingar innsigluðu endanlega sigurinn með marki Sigurðar Egils á 89. mínútu.
Tveir aðrir leikir fóru fram í 1. deildinni í kvöld. Ivan Dragicevic var hetja KA sem vann 1-0 sigur á Þrótturum sem eru því enn í næstneðsta sæti deildarinnar með átta stig. Völsungur er á botninum með tvö.
Þá hafði Tindastóll betur gegn Haukum, 2-1. Steven Beattie kom Stólunum yfir en Hilmar Geir Eiðsson jafnaði metin fyrir Hauka áður en flautað var til hálfleiks. Sigurmarkið kom svo á 76. mínútu en þar var Elvar Páll Sigurðsson að verki.
Tindastóll hefur nú spilað fjóra deildarleiki í röð án taps en liðið er komið upp í níunda sæti deildarinnar með ellefu stig. Haukar duttu niður í þriðja sæti deildarinnar með tapinu í kvöld.

