Kvennalið Fram tekur þátt í EHF bikarnum í vetur en karlaliðið tók þá ákvörðun að vera ekki með.
„Við leyfðum leikmönnum að ráða þessu sjálfir," segir Árni Ólafur Hjartarson, formaður handknattleikdeildar Fram, í samtali við Vísi. Hann segir ferð kvennaliðsins að mestu leyti fjármagnaða af leikmönnum.
„Stelpurnar vildu skella sér í Evrópukeppnina. Það kom ekkert annað til greina hjá þeim," segir Árni. Þetta verður sjötta árið í röð sem Fram tekur þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki. Liðið féll út við fyrstu hindrun gegn sterku liði Tertnes Bergen frá Noregi í fyrra.
Haukar munu senda karlalið í Evrópukeppnina líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í morgun. Kollegar þeirra í Fram og ÍR verða hins vegar ekki með.
„Strákarnir fara utan í æfingaferð í ágúst sem þeir fjármagna að mestu leyti sjálfir. Þeim finnst það bara nóg. Þeir fá kannski meira út úr því handboltalega séð að fara utan í vikuferð," segir Árni um ákvörðun karlaliðsins.
Framarar urðu Íslandsmeistarar í báðum flokkum á síðustu leiktíð. Lykilmenn eru þó horfnir á braut hjá báðum liðum og verður erfitt að fylla í þeirra skörð. Danski markvörðurinn Stephen Nielsen, sem kom til Framara í sumar, lofar góðu að sögn Árna. Hann segir aldrei að vita nema fleiri bætist í hópinn en annars verður að miklu leyti treyst á yngri leikmenn í vetur.
„við erum með marga efnilega stráka. Við vorum með þrjá eða fjóra í U19 ára landsliði drengja í fyrra og níu í æfingahópnum hjá stelpunum. Fjórar eða fimm þeirra voru í lokahópnum," segir Árni. Ungir leikmenn félagsins verði að fá tækifæri.
„Ef þeir fá aldrei að spila þá gerist náttúrulega aldrei neitt."
