Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eitt marka Kristianstad í 3-0 sigri á Mallbacken í sænsku kvennadeildinni í dag en þetta var langþráður sigur hjá Elísabetu Gunnarsdóttur og stelpunum hennar sem voru búnar að spila fimm deildarleiki í röð án þess að vinna.
Kristianstad vann síðast leik á móti Sunnanå 6. júní en Margrét Lára skoraði tvö mörk í þeim leik.
Kristianstad gerði út um leikinn á fyrstu 32 mínútum leiksins. Susanne Moberg skoraði fyrsta markið á 7. mínútu en Margrét Lára bætti við öðru marki á 20. mínútu eftir sendingu frá Jóhönnu Rasmussen. Þriðja markið var síðan sjálfsmark en það kom á 32. mínútu.
Þetta var tíunda mark Margrétar Láru Viðarsdóttur í sænsku úrvalsdeildinni í sumar en hún er í hópi markahæstu leikmanna deildarinnar.
