Hólmfríður Magnúsdóttir fór á kostum þegar Avaldsnes tryggði sér sæti í úrslitaleik norska bikarsins með 5-1 sigri á Vålerenga í dag.
Tvö mörk Hólmfríðar á fyrstu ellefu mínútum leiksins gáfu tóninn fyrir veisluna sem framundan var. Mörkin skoraði Fríða með skotum rétt utan teigs og utarlega í teignum. Heimakonur bættu við marki fyrir hlé og leiddu í hálfleik 3-0.
Fríða bætti við marki eftir mínútu leik í seinni hálfleik og innsiglaði fernu sína á 54. mínútu. Henni var svo skipt af velli á 72. mínútu við mikinn fögnuð stuðningsmanna Avaldsnes.
Auk Hólmfríðar voru Guðbjörg Gunnarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir í byrjunarliði Avaldsnes. Mist Edvarsdóttir var á bekknum líkt og Sandra Sif Magnúsdóttir hjá gestunum. Leikurinn var í beinni útsendingu í norska ríkissjónvarpinu, NRK1.
Fylgst var með gangi leiksins hér á Vísi.
1-0 Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 9. mínútu. Fríða fékk þá boltann á vinstri kanti, lék inn að miðju og skaut utan teigs. Boltinn hafnaði neðst í markhorninu.
2-0 Aðeins tveimur mínútum síðar var Hólmfríður aftur á ferðinni. Í þetta skiptið smellti hún boltanum efst í markhornið rétt innan teigs. Glæsilegt mark og áhorfendur á heimavelli Avaldsnes fögnuðu vel.
3-0 Enn var tilefni til að fagna á 38. mínútu. Þá skoraði hin brasilíska Debinha með skalla rétt utan teigs en markvörður gestanna var kominn langt út úr marki sínu. Sú brasilíska fagnaði að sjálfsögðu með danstöktum.
Hálfleikur:Staðan er 3-0. Heimakonur hafa verið miklu betri og ekkert annað í spilunum núna en að Avaldsnes fari í bikarúrslitin.
4-0 Hólmfríður ætlar að halda uppteknum hætti í síðari hálfleik. Nú vann hún boltann strax eftir sextíu sekúndur í hálfleiknum. Fríða lék inn á teiginn og skaut með vinstri fæti. Skotið hafði viðkomu í varnarmanni og fór þaðan framhjá markverði gestanna.
5-0 Hver haldið að hafi skorað? Nú fékk Hólmfríður sendingu inn fyrir vörn gestanna á 54. mínútu. Hólmfríður var á undan markverði Vålerenga í boltann, lék framhjá henni og sendi boltann í markið með vinstri fæti. Þvílíkur leikur hjá vinstri kantmanninum.
72. mín Hólmfríði er skipt af velli við mikinn fögnuð stuðningsmanna heimaliðsins. Þvílík frammistaða hjá Rangæingnum.
Leik lokið Avaldsnes vinnur 5-1 sigur og er komið í bikarúrslit.
