Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir tryggðu sér í dag sænska meistaratitilinn með liðsfélögum sínum í LdB Malmö þegar liðið vann 2-0 sigur á heimavelli á móti Umeå í næstsíðustu umferðinni. Sara Björk skoraði seinna markið í hellirigningunni í Malmö í dag.
Það er þegar ljóst að íslensku landsliðskonurnar spila ekki með LDB Malmö á næsta tímabili því sænsku meistararnir munu nefnilega breyta nafninu sínu yfir í FC Rosengård.
LdB Malmö hefur spilað undir þessu nafni frá árinu 2007 og varð í dag sænskur meistari í þriðja sinn á aðeins fjórum árum. Þóra hefur verið með í öll skiptin en Sara í þeim tveimur síðustu.
FC Rosengård er þekktast fyrir það að vera uppeldisfélag Zlatan Ibrahimovic sem er líklega stærsta knattspyrnustjarna svía fyrr og síðar. Karlalið FC Rosengård spilar í sænsku d-deildinni sem er svæðisskipt.
