Guðjón Baldvinsson skoraði eitt marka Halmstad í 3-1 útisigri á Häcken í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Halmstad-liðið í fallbaráttunni.
Guðjón skoraði markið sitt á 70. mínútu en hann kom þá Halmstad yfir í 2-1. Viktor Ljung lagði upp mark Guðjóns sem og þriðja markið sem Johan Blomberg skoraði fimm mínútum síðar.
Þetta var fimmta deildarmark Guðjóns á tímabilinu en hann er næstmarkahæsti leikmaður Halmstad eftir Mikael Boman sem hefur skorað níu mörk.
Guðjón spilaði allan leikinn í kvöld og Kristinn Steindórsson, sem skoraði sigurmark liðsins í leiknum á undan, kom inná sem varamaður á 56. mínútu þegar staðan var 1-1.
Halmstad hefur nú unnið tvo lífsnauðsynlega deildarsigra í röð og liðið er nú bara einu stigi á eftir Brommapojkarna sem situr eins og er í síðasta örugga sæti deildarinnar. Brommapojkarna á hinsvegar leik inni um helgina.
