HK-ingar byrjuðu leikinn ágætlega og voru greinilega ákveðnir í að ná í sinn fyrsta sigur í kvöld. FH komst samt sem áður í 2-1 í leiknum en það var einhver neisti í HK-ingum sem ekki hefur sést í vetur, ekki síðan liðið náði í jafntefli gegn FH í fyrstu umferð.
Þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 5-2 fyrir FH og þá fóru gestirnir í gang og aðeins nokkrum mínútum síðar munaði aðeins einu marki á liðunum, 6-5, FH í vil.
Þegar átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum var staðan síðan orðin jöfn 8-8 og það verður að segjast á þeim tímapunkti leit FH-liðið ekki vel út.
Heimamenn hrukku aftur á móti í gang undir lok hálfleiksins og leiddu í hálfleik 13-10.
Það tók HK-inga fimm mínútur að skora sitt fyrsta mark í síðari hálfleiknum þegar Atli Karl Bachmann kom boltanum loks í netið en þá var staðan orðin 14-11. Byrjun HK gaf til kynna að liðið væri komið að einhverskonar endastöð í leiknum.
Þegar rúmlega fimmtán mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin 17-12 og útlitið virkilega dökkt fyrir gestina.
HK-ingar sýndu á köflum baráttu í sínum leik en leikmenn liðsins vantar bara töluvert uppá í reynslubankann. FH vann að lokum þægilegan sigur 29-24.
FH er í efsta sæti deildarinnar, tímabundið í það minnsta, með 11 stig en HK sem fyrr á botninum með 1 stig.
Ásbjörn: Sóknarleikur okkar að koma til

„Manni fannst eins og við værum samt alltaf með þennan leik. Það kom aldrei til greina að tapa stigum í kvöld. Við gerðum jafntefli við HK í fyrstu umferð og það stig hefur reynst okkur dýrkeypt.“
„Sóknarleikur liðsins á tímabilinu hefur kannski verið örlítið hægari en undanfarinn ár og það er hlutur sem við erum að vinna í. Við vinnum samt alla leiki á góðri vörn og markvörslu.“
Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Ásbjörn hér að ofan.
Samúel: Strákarnir leggja sig alltaf fram og gefast aldrei upp

„Það voru fullt af jákvæðum punktum í okkar leik í kvöld, það er stemning í strákunum en þetta féll ekki með okkur í dag.“
„Það gekk ýmislegt á hér í kvöld. Við vorum óheppnir með brotrekstra, held að við höfum farið sex sinnum útaf vellinum og FH-ingar aðeins einu sinn. Ég ætla samt ekki að kenna dómurunum um þetta tap.“
„Það eina sem maður getur krafist af þessum strákum er að þeir leggi sig alltaf 100% fram og gefist aldrei upp.“
Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Samúel hér.