Ákærðu mættu í dómsalinn eftir hádegi, en fyrir hádegi voru teknar skýrslur í málum sem snúa sérstaklega að Stefáni Loga og voru hinir því ekki viðstaddir. Sex fangaverðir fylgdu sakborningunum og sitja með þeim í salnum.
Konan segist hafa verið í samkvæminu á mánudeginum þegar ráðist var á annan manninn. Degi áður hafði hún komið úr vist á meðferðarstofnum. Á mánudeginum hafi hún dottið í það á ný.
„Þeir fóru að rífast um þessa stelpu og um þennan vin hans (Stefáns Loga) sem á að hafa átt að sofa hjá henni,“ sagði konan, og segist ekki vita nákvæmlega hvað mönnunum fór á milli. „Hann var bara að tuska hann til, þeir voru búnir að vera að á djamminu í viku, á einhverju E-pillu flippi.“
Segir ákærðu hafa verið óvopnaða
Konan segir barsmíðarnar ekki hafa verið alvarlegar, og sá ekki hvort höggin hefðu verið veitt með hnefa eða flötum lófa. Þá segist hún hafa heyrt manninn biðja Stefán Loga um að hætta.
„Svo komu þeir fram og þá er ákveðið að fara upp í Grafarvog,“ segir konan, en hún sat undir stýri. Í bílnum voru ásamt henni þeir Gísli Þór, Hinrik Geir, auk fórnarlambsins og kærasta konunnar. Hún segir ákærðu ekki hafa verið vopnaða og að fórnarlambið hafi verið í bílnum sjálfviljugur. Aðspurð segist hún þó ekki hafa verið með í för þegar mennirnir tveir voru fluttir til Hafnarfjarðar.
Verjandi Hinriks Geirs spurði konuna hvort hún líti svo á að ofbeldið gegn manninum í Breiðholti hafi eingöngu verið af hendi Stefáns Loga eða hvort aðrir ákærðu hafi verið blandaðir í málið. Hún sagði málið hafa bara verið á milli þeirra tveggja.

Sækjandi bar undir konuna framburð hennar úr lögregluskýrslum. Þar kemur meðal annars fram að maðurinn hafi verið stunginn með sprautum og stunginn með dúkahníf. Þessi neitaði konan alfarið í dómsalnum í dag, og sagðist ekki muna eftir neinu sem hún sagði í skýrslunni. Konan var einnig spurð hvort hún hefði verið undir áhrifum fíkniefna og játaði hún að hafa verið undir áhrifum kókaíns, amfetamíns, róandi lyfja og kannabisefna.
„Ég fékk taugaáfall þarna á þessum tíma og man ekkert eftir þessu,“ sagði konan. Sækjandi spurði hana þá hvort hún hefði verið að búa allt saman til. „Já þess vegna. Segjum það bara.“
Í skýrslunni kemur einnig fram að Stefán Logi hafi tekið konuna hálstaki og ætlað að nauðga kærasta hennar og fara með hann upp í sveit á Stokkseyri. Þetta bar konan til baka í framburði sínum í dag, segir hótunina hafa verið grín, og að kærasti hennar hafi verið sá sem tók hana hálstaki.
Hún staðfesti hins vegar að Stefán Logi hefði slitið keðju af hálsi mannsins og slegið hann með henni. Þá sagði hún einnig að maðurinn, ásamt öðrum (ekki Stokkseyrarfórnarlambinu), hefði verið bundinn í stutta stund með sellófani.