Okkar eigin ofbeldismenning Ólafur Þ. Stephensen skrifar 8. janúar 2013 06:00 Hrottaleg hópnauðgun á ungri indverskri konu, sem leiddi til dauða hennar, hefur vakið athygli heimsins á hlutskipti kvenna í Indlandi. Eins og fram kom í fréttaskýringu í helgarblaði Fréttablaðsins er algengt að réttarkerfið bili í kynferðisbrotamálum þar í landi; að lögreglan bregðist jafnvel við kærum vegna nauðgana með því að hvetja fórnarlömbin til að giftast glæpamönnunum. Karlar hafa komizt upp með alls konar ofbeldi gegn konum refsilaust, þótt lagabókstafurinn segi annað. Nauðgunin í Nýju-Delhí hefur markað ákveðin þáttaskil í indverskum stjórnmálum. Almenningi hefur verið nóg boðið og ráðamenn í þessu fjölmennasta lýðræðisríki heims hafa brugðizt við með loforðum um að taka harðar á kynferðisglæpum. Ofbeldi gegn konum og skeytingarleysi um slíka glæpi er hins vegar alþjóðlegt vandamál og afmarkast alls ekki við Indland eða önnur þriðjaheimsríki. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur vakti athygli á því í víðlesnum netpistli í síðustu viku: „Þegar svona ólýsanlegur hryllingur er annars vegar finnst mörgum gott að einblína á fjarlægðina. Já en þetta er Indland, það er fátækt og fáfrótt langtíburtistan. Svona atburður myndi aldrei gerast í siðmenntuðu landi og allra síst á Íslandi. Við þá sem hugsa svona vil ég segja að ég tók einu sinni viðtal við íslenska konu sem hafði verið hópnauðgað með skrúfjárni. Á Íslandi. Af íslenskum mönnum." Þórdís Elva bendir réttilega á að ekki eigi að horfa á einstök mál, heldur „hvernig ógnin gegn persónulegu öryggi kvenna ógnar í raun friði í heiminum". Við getum sannarlega horft okkur nær. Um allan hinn vestræna heim eru konur beittar ofbeldi og jafnvel þótt réttarkerfið skilgreini það sem glæp sem verðskuldar þunga refsingu, bregzt samfélagið stundum furðulega við. Undanfarnar vikur hafa bandarískir fjölmiðlar fjallað um glæp sem framinn var í smábænum Steubenville í Ohio. Tveir sextán ára piltar eru sakaðir um að hafa dregið jafnöldru sína, sem var rænulaus vegna drykkju, á milli partía og nauðgað henni ítrekað. Stór hluti bæjarbúa stendur með nauðgurunum og stúlkan hefur orðið fyrir margs konar aðkasti vegna þess að hún kærði mennina. Ástæðan er að þeir eru helztu hetjur fótboltaliðs bæjarins og fyrir vikið finnst mörgum óhugsandi að þeir geti verið svona andstyggilegir. Hljómar þetta ótrúlega eða fáránlega? Við getum enn litið okkur nær. Árið 2011 leituðu átján manns til Stígamóta eftir hópnauðgun. Það eru ekki nema þrettán ár síðan á annað hundrað bæjarbúa í íslenzkum kaupstað skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við mann, sem hafði hlotið dóm fyrir að nauðga ungri stúlku. Konur hafa hrakizt frá heimabyggð sinni fyrir þær sakir að þær kærðu „góða drengi" fyrir nauðgun eða heimilisofbeldi. Skelfilegur glæpur í fjarlægu landi hefur ýtt undir vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi. Sú vakning þarf að eiga sér stað um allan heim og líka hér. Við eigum að horfa í eigin barm og spyrja hvað það sé í okkar eigin menningu sem viðheldur og viðurkennir jafnvel ógeðslegt ofbeldi gegn konum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Hrottaleg hópnauðgun á ungri indverskri konu, sem leiddi til dauða hennar, hefur vakið athygli heimsins á hlutskipti kvenna í Indlandi. Eins og fram kom í fréttaskýringu í helgarblaði Fréttablaðsins er algengt að réttarkerfið bili í kynferðisbrotamálum þar í landi; að lögreglan bregðist jafnvel við kærum vegna nauðgana með því að hvetja fórnarlömbin til að giftast glæpamönnunum. Karlar hafa komizt upp með alls konar ofbeldi gegn konum refsilaust, þótt lagabókstafurinn segi annað. Nauðgunin í Nýju-Delhí hefur markað ákveðin þáttaskil í indverskum stjórnmálum. Almenningi hefur verið nóg boðið og ráðamenn í þessu fjölmennasta lýðræðisríki heims hafa brugðizt við með loforðum um að taka harðar á kynferðisglæpum. Ofbeldi gegn konum og skeytingarleysi um slíka glæpi er hins vegar alþjóðlegt vandamál og afmarkast alls ekki við Indland eða önnur þriðjaheimsríki. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur vakti athygli á því í víðlesnum netpistli í síðustu viku: „Þegar svona ólýsanlegur hryllingur er annars vegar finnst mörgum gott að einblína á fjarlægðina. Já en þetta er Indland, það er fátækt og fáfrótt langtíburtistan. Svona atburður myndi aldrei gerast í siðmenntuðu landi og allra síst á Íslandi. Við þá sem hugsa svona vil ég segja að ég tók einu sinni viðtal við íslenska konu sem hafði verið hópnauðgað með skrúfjárni. Á Íslandi. Af íslenskum mönnum." Þórdís Elva bendir réttilega á að ekki eigi að horfa á einstök mál, heldur „hvernig ógnin gegn persónulegu öryggi kvenna ógnar í raun friði í heiminum". Við getum sannarlega horft okkur nær. Um allan hinn vestræna heim eru konur beittar ofbeldi og jafnvel þótt réttarkerfið skilgreini það sem glæp sem verðskuldar þunga refsingu, bregzt samfélagið stundum furðulega við. Undanfarnar vikur hafa bandarískir fjölmiðlar fjallað um glæp sem framinn var í smábænum Steubenville í Ohio. Tveir sextán ára piltar eru sakaðir um að hafa dregið jafnöldru sína, sem var rænulaus vegna drykkju, á milli partía og nauðgað henni ítrekað. Stór hluti bæjarbúa stendur með nauðgurunum og stúlkan hefur orðið fyrir margs konar aðkasti vegna þess að hún kærði mennina. Ástæðan er að þeir eru helztu hetjur fótboltaliðs bæjarins og fyrir vikið finnst mörgum óhugsandi að þeir geti verið svona andstyggilegir. Hljómar þetta ótrúlega eða fáránlega? Við getum enn litið okkur nær. Árið 2011 leituðu átján manns til Stígamóta eftir hópnauðgun. Það eru ekki nema þrettán ár síðan á annað hundrað bæjarbúa í íslenzkum kaupstað skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við mann, sem hafði hlotið dóm fyrir að nauðga ungri stúlku. Konur hafa hrakizt frá heimabyggð sinni fyrir þær sakir að þær kærðu „góða drengi" fyrir nauðgun eða heimilisofbeldi. Skelfilegur glæpur í fjarlægu landi hefur ýtt undir vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi. Sú vakning þarf að eiga sér stað um allan heim og líka hér. Við eigum að horfa í eigin barm og spyrja hvað það sé í okkar eigin menningu sem viðheldur og viðurkennir jafnvel ógeðslegt ofbeldi gegn konum.