Endurgerðirnar á Tvíeind eru nokkuð ólíkar. Fjórar þeirra eru "remix", en ein er alveg ný útgáfa. Tvö laganna fá trommu- & bassayfirhalningu, annars vegar Ljóð í sand í meðförum Danans Sakaris og hins vegar Lost In You sem Rússinn Veell endurgerir. Ruxpin (Days & Nights) og Kippi kanínus (Shades) vinna báðir mjög vel úr stemningunni í frumútgáfunum í sínum endurgerðum þó að þær séu ólíkar. Loks er það hljómsveitin Iamthemorning frá St. Pétursborg, en hún gerir alveg nýja útgáfu af laginu Á meðan jörðin sefur. Söngkona sveitarinnar syngur lagið á íslensku.
Tónlist Árstíða er undir venjulegum kringumstæðum sambland af órafmögnuðu indískotnu þjóðlagapoppi og klassík. Breytingin hér er þess vegna töluverð. Það er búið að raf- og taktvæða tónlistina. Þó að endurgerðirnar séu ólíkar þá eru þær allar vel heppnaðar og bæta miklu við frumgerðirnar. Fín plata.
Niðurstaða: Fimm áhugaverðar endurgerðir af tónlist Árstíða.
