Tónlist

Súrrealískt að spila með Sinfó

Freyr Bjarnason skrifar
„Þetta er hálfsúrrealískt en þetta leggst gríðarlega vel í okkur alla,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari Skálmaldar. Rokkararnir spila í fyrsta sinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg 29. nóvember.

Tónlist Skálmaldar er þungarokk með þjóðlaga- og víkingaáhrifum og verður forvitnilegt að sjá þessar tvær hljómsveitir sameinast á sviði.

Á efnisskránni verður tónlist af plötum Skálmaldar, Baldri og Börnum Loka. „Það er búið að ræða mikið hvernig við ætlum að hafa þetta og það var ákveðið strax að skrifa þetta alveg út fyrir sinfóníuhljómsveit,“ segir Snæbjörn. Tónskáldið Haraldur V. Sveinbjörnsson mun færa þungmálm Skálmaldar í sinfónískan búning.

Aðspurður segir Snæbjörn það frábært þegar vel takist að blanda þungarokki og sígildri tónlist saman. „Þegar menn hætta að hugsa um þetta sem rokk, popp eða þungarokk á móti klassík og kveikja á því að þetta er allt tónlist finnst mér þetta algjörlega „brilljant“. Þetta er ekki eins ofboðslega ólíkt og menn vilja meina.“

Hann segir þessa tvo heima sífellt vera að nálgast. „Hrokinn í báðar áttir hefur minnkað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×