„Þetta er norskt síldarsjóhús byggt af Jóhanni Dahl síldarútgerðarmanni. Hann kom með það með sér frá Noregi 1880, setti það upp og var sjálfur hér með útgerð til 1883. Síðan gekk húsið kaupum og sölum, var notað sem fiskverkunarhús og um tíma sem sláturhús. Sá sem ég keypti það af er Hilmar Bjarnason, sem hafði átt það frá 1945. Hann er enn á lífi, fæddur 1916,“ upplýsir Jens.
Jens hallast að því að húsið sé mun eldra en frá 1880. „Síldin hvarf frá Noregi um 1873 en þegar Norðmenn fréttu af fullum fjörðum hér af síld þá komu þeir. Ég held að Jóhann hafi tekið þetta hús niður úti í Noregi og flutt það hingað.“
Dahlshús er 90 fermetrar að grunnfleti en risið er stórt þannig að húsið er um 160 fermetrar í allt. En hvað kom Jens til að festa kaup á því?
„Ég hef áhuga á þessum gömlu norsku húsum sem hér eru og útgerðarsögunni í kringum þau. Þegar Dahlshús var til sölu 2010 fannst mér að það yrði að bjarga því í sinni mynd og fór í þessa vegferð í samráði við Húsafriðunarnefnd. Við byggðum bara nýtt hús utan um gamla húsið. Settum nýja klæðningu og nýtt þak en að innan er húsið nákvæmlega eins og það var þegar það var reist. Það merkilega er að það hefur algerlega haldist óbreytt. Á bitunum eru fangamörk manna frá 1883 og 1889 og þau hafa alveg haldist.“

Jens tekur fram að nú sé húsið ekki alveg eins og það á að sér, að innanverðu, því búið sé að hvítklæða veggi og setja upp flúorlýsingu að kröfu listamannanna.
Fleiri norsk hús eru á Eskifirði, sum er búið að taka í gegn en nokkur eru enn óuppgerð. Spurður hvort hann sé að hugsa um að taka fleiri hús í fóstur svarar Jens: „Ætli ég reyni ekki að sleikja sárin eftir þetta ævintýri áður en ég fer að huga að fleirum. Kannski verður þetta framtak einhverjum hvatning til að taka að sér svona verkefni.“