Winding Refn er danskur og eru foreldrar hans báðir tengdir kvikmyndaiðnaðinum; faðir hans, Anders Refn er leikstjóri, og móðir hans, Vibeke Winding er kvikmyndatökukona.
Sló í gegn með Pusher
„Þegar maður hefur verið viðloðandi kvikmyndaiðnaðinn frá blautu barnsbeini, verður þetta manni nánast eðlislægt,“ segir leikstjórinn sem sló í gegn árið 1996 með sinni fyrstu kvikmynd, Pusher. Sjálfur segist hann þó lítið spá í eigin velgengni. „Velgengni er blekking. Ef maður hugsar of mikið um hana þá verða mistök óhjákvæmileg. Maður á þess í stað að taka af skarið og framkvæma, ef maður ofhugsar hlutina verður maður þræll eigin væntinga,“ segir Winding Refn og gerir hér hlé á máli sínu til þess að sinna börnum sínum sem dvelja með honum tímabundið í Los Angeles.
Spurður út í samstarf sitt og leikarans Ryans Gosling segir leikstjórinn það gott, en þeir höfðu áður unnið saman að gerð kvikmyndarinnar Drive. „Við þekkjum hvor annan betur núna og samstarfið var því auðveldara. Hann er þó mjög mjög þægilegur í viðmóti og frábær leikari.“
Tónlist spilar veigamikið hlutverk í kvikmyndum Windings Refn og kveðst hann leggja mikla vinnu í lagavalið. „Ég er hrifinn af ólíkum tónlistarstefnum og valið ræðst af því. Við klipparinn vinnum þetta svo áfram í sameiningu.“
Leikstjórinn dvelur nú ásamt fjölskyldu sinni í Los Angeles þar sem hann undirbýr næsta verkefni, endurgerð kvikmyndarinnar Barbarellu. „Ég er að skrifa handritið um þessar mundir og sú vinna gengur vel. Svo sjáum við hvað gerist eftir það,“ segir Winding Refn að lokum.