Íslenska landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir var hetja Kolbotn í norsku úrvalsdeildinni í gær þegar hún skoraði eina markið í 1-0 sigri á Amazon Grimstad.
Fanndís skoraði sigurmarkið sitt eftir einstaklingsframtak á 62. mínútu leiksins. Þetta var fimmta mark Fanndísar á tímabilinu í tólf leikjum en hún stendur sig vel á sinni fyrstu leiktíð í atvinnumennskunni.
„Hún átti skilið að skora þetta mark því hún vann vel fyrir liðið og átti góðan dag. Hún var hungruð í mark í þessum leik og ég var ánægður með að sjá það,“ sagði David Brocken, þjálfari Kolbotn við Östlandets Blad.
