Skoðun

Skilaboðin úr Trékyllisvík

Árni Páll Árnason skrifar
Um þarsíðustu helgi var haldið Fjórðungsþing Vestfirðinga í Trékyllisvík á Ströndum. Þar var samþykkt ályktun um að harma þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slá aðildarviðræðum við Evrópusambandið á frest. Þingið skoraði á ríkisstjórnina að klára viðræðurnar og bera samning undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Gríðarleg vinna hafi verið lögð í undirbúning verkefna sem miða að því að bæta samkeppnishæfni svæða, en eru nú í uppnámi vegna óvissu um áframhald IPA-verkefna.

„Byggðastefna ESB miðar að því að aðstoða hvert svæði við að nýta getu sína til fullnustu með því að bæta samkeppnishæfni og efla atvinnulíf,“ segir í ályktuninni. „Það er gert með verulegu fjármagni og aðferðafræði sem gæti nýst okkur Íslendingum afar vel.“

Á Vestfjörðum hefur undanfarin ár verið lögð mikil vinna í að skilgreina leiðir til að byggja upp atvinnulíf og treysta byggð. Grunnurinn sem heimamenn vilja byggja á er hreinleiki svæðisins, ósnortin náttúra og vitund um mikilvægi umhverfisverndar. Í slíku felast sóknarfæri í ferðaþjónustu, landbúnaði og sjávarútvegi.

En veruleikinn er erfiður. Of háir vextir og lélegur aðgangur að fé til uppbyggingar. Aðild að ESB myndi leysa þann vanda fyrir Vestfirðinga, eins og aðra í hinum dreifðu byggðum.

Og án aðgangs að erlendum mörkuðum mun störfum tæpast fjölga í landbúnaði. Landbúnaðurinn hefur gríðarlega vaxtarmöguleika, en þarf að losna úr álögum einangrunar og fákeppni í afurðaþróun. Aðild að ESB myndi skapa okkur ný tækifæri til að fjölga störfum í landbúnaði.

Skilaboðin úr Trékyllisvík eru skýr: Hagsmunir landsbyggðanna felast í því að lokið verði við samninga um aðild að ESB.

Spurningin er hvort ríkisstjórnin hlusti. Hún hefur nú þegar orðið sér til minnkunar með því að telja sig vita betur hverjir eru hagsmunir verkalýðshreyfingar og atvinnulífs en Alþýðusambandið, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð. Ætlar hún núna að segja okkur að hún þekki betur hagsmuni landsbyggðanna en fundur Vestfirðinga í Trékyllisvík?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×