„Háhyrningar hafa gert sig heimakæra í firðinum á vorin og ferðamönnum hefur fjölgað mikið vegna þessa. Ef þetta gengur vel höldum við hátíðina í nóvember héðan í frá,“ útskýrir Dögg Mósesdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
Fjöldi verðlaunamynda er sýndur á hátíðinni og ber þar helst að nefna íslensku stuttmyndina Hvalfjörð og írönsku myndina More Than Two Hours. Að auki keppa tíu íslensk tónlistarmyndbönd um titilinn besta íslenska myndbandið. Um tuttugu erlendir leikstjórar munu sækja Northern Wave. „Það er skemmtilegt að margar af þeim myndum sem bárust okkur eru að flakka um flottustu hátíðir heims, fólki þykir greinilega eftirsóknarvert að fá að taka þátt í þessari litlu hátíð í íslensku sjávarplássi,“ segir Dögg.
Margaret Glover, sem starfar við London Film School, situr í dómnefnd hátíðarinnar ásamt Silju Hauksdóttur og Hafsteini Gunnari Sigurðssyni. Jim Beckmann og Benedikt Reynisson velja besta tónlistarmyndbandið.